ÍA kaupir fyrirliða ÍBV – „Of gott tilboð til að hafna“


Sindri Snær Magnússon er nýr leikmaður hjá meistaraflokki ÍA í knattspyrnu. ÍA keypti Sindra Snæ í dag frá ÍBV í Vestmannaeyjum.

Sindri Snær hefur verið fyrirliði ÍBV undanfarin ár. Fréttavefurinn fotbolti.net greindi fyrst frá í kvöld.

Sindri Snær er fæddur árið 1992 og er mjög leikreyndur en hann hefur leikið yfir 200 leiki á ferlinum. Hann lék fyrst með ÍR á árunum 2008-2011, Breiðabliki 2012, Selfoss 2013, Keflavík 2014-2015, og ÍBV frá árinu 2016.

Hann varð bikarmeistari með ÍBV árið 2017 þegar liðið lagði FH í úrslitaleik.

„Við fengum tilboð í gær sem við höfnuðum. Í dag kom of gott tilboð til að hafna. Ljóst var að Sindri myndi nýta sér uppsagnarákvæði í haust og tókum við því tilboðinu,“ sagði Daníel Geir Moritz, formaður knattspyrnuráðs ÍBV, við Fótbolta.net.

Allar líkur eru á því að Arnar Már Guðjónsson verði lengi frá keppni vegna meiðsla sem hann varð fyrir í síðasta leik gegn Val. Arnar Már meiddist illa á hné í leiknum.