Glæsilegur sigur gegn Levadia frá Tallinn í Unglingadeild UEFA


Sameiginlegt lið ÍA/Kára/Skallagríms sigraði Levadia Tallinn frá Eistlandi4-0 í dag. Um var að ræða fyrri leik liðanna í Unglingadeild UEFA.

Fjölmargir áhorfendur sáu Íslandsmeistaralið síðustu tveggja ára í 2. flokki karla í knattspyrnu sýna sterkustu hliðar liðsins.

Fyrirliðinn Sigurður Hrannar Þorsteinsson skoraði fyrsta mark leiksins á 22. mínútu. Hann skoraði síðan fjórða markið á 86. mínútu úr vítaspyrnu. Marteinn Theodórsson skoraði með glæsilegu langskoti á 49. mínútu með vinstri fæti. Borgnesingurinn Brynjar Snær Pálsson skoraði þriðja markið beint úr hornspyrnu á 70. mínútu.

ÍA/Kári/Skallagrímur leikur gegn Levadia Tallinn á ný á útivelli miðvikudaginn 23. október 2019. Með góðum úrslitum þar fer liðið áfram í næstu umferð. Þar verða mótherjarnir Derby County frá Englandi eða Minsk frá Hvíta-Rússlandi.

Breiðablik lék í þessari keppni árið 2017 fyrst íslenskra liða í 2. flokki. Blikar töpuðu gegn Legia frá Póllandi í 1. umferð. Í fyrra lék KR gegn Elfsborg frá Svíþjóð og féll KR einnig úr leik í 1. umferð.

http://localhost:8888/skagafrettir/2019/10/02/myndasyrpa-sjadu-flottu-fognin-i-storsigri-2-flokks-i-uefa-keppninni/