Íbúar á neðri-Skaganum með opið hús á tónlistarhátíðinni HEIMA-SKAGI

„Ég er í hópnum sem hefur staðið fyrir sambærilegri hátíð í Hafnarfirði. Frá því að við fjölskyldan fluttum á Akranesi fyrir tveimur árum hef ég velt því fyrir mér hvort hægt væri að gera eitthvað svipað hér á Akranesi. Ég ræddi þessa hugmynd við Hlédísi Sveinsdóttur. Eftir það spjall var ákveðið að kýla bara á þetta,“ segir Ólafur Páll Gunnarsson útvarpsmaður á RÚV um tónlistarhátíðina HEIMASKAGI sem fram fer 1. nóvember n..k. samhliða menningarhátíðinni Vökudagar á Akranesi.

Fyrirmyndin frá Færeyjum

„Undanfartin sex ár hafa Hafnfirðingar boðið heim á tónlistarhátíðinni HEIMA og við ætlum bara að útfæra þá hugmynd á Akranes. Fyrirmyndin kemur frá Færeyjum, en tónlistarhátíðin HOYMA, hefur verið til staðar í Gøtu í Færeyjum undanfarin 7 ár,“ bætir Ólafur Páll við en margir þekktir listamenn verða í boði á HEIMASKAGA.

Ólafur Páll Gunnarsson.

„Þetta er að mínu mati gríðarlega skemmtilegt form á tónlistarhátíð. Viðburðirnir verða flestir í HEIMA-húsum á neðri-Skaganum. Þar sem stutt verður að ganga á milli viðburða. Það spila ekki allir í einu og það er gert ráð fyrir að fólk gangi á milli húsa (tónleikastaða),“ segir Ólafur Páll en íbúar á neðri-Skaganum tóku vel í þá hugmynd að opna hús sín fyrir þessa viðburði.

HEIMA-SKAGI fer framá eftirtöldum stöðum; Vesturgata 32 (Haraldarhús), Vesturgata 71b (Einar Skúlason), Skólabraut 20 (Guðni og Lilja), Grundartún 8 (Pálmi Haralds og Elfa), og einnig í Báran brugghús og Akraneskirkju.

Þeir sem koma fram á HEIMA-SKAGA hátíðinni í ár eru:

Jónas Sig
Valgeir Guðjónsson
Ragnheiður Gröndal
Úlfur Úlfur
Högni Egilsson
Friðrik Dór

Þeir fyrstu stíga á stokk kl. 20.00 og þeir síðustu enda um kl. 23.00. Að dagskrá lokinni er svo „eftirpartí“ á Gamla Kaupfélaginu sem er opið öllum og frítt inn. Þar getur fólk hist og borið saman bækur sínar og heyrða tóna eftir kvöldið.

Miðasala er í gangi á TIX og á tónleikadag skiptir fólk miðanum sínum út fyrir armband og dagskrá sem sýnir hvar hver spilar og klukkan hvað.

Alls eru 6 listamenn sem koma fram og hver listamaður spilar tvívegis, en aðeins einu sinni í sama húsinu.