Eva Björg með nýja spennuskáldsögu – „Stelpur sem ljúga“

„Stelpur sem ljúga“ er framhald af fyrstu skáldsögunni minni „Marrinu í stiganum,“ segir rithöfundurinn Eva Björg Ægisdóttir við skagafrettir.is

„Marrið í stiganum“ vakti mikla athygli þegar hún kom út vorið 2018. Eva Björg, sem er fædd á Akranesi, fékk m.a. spennu­sagna­verð­launin Svart­fuglinn fyrir bókina og í kjölfarið gerði hún útgáfusamning við breskt fyrirtæki.

Eva Björg Ægisdóttir.

„Ég er með sömu aðalpersónur í nýju bókinni, Elma og Sævar. Í þetta sinn hverfur ung, einstæð móðir. Hún skilur eftir miða handa fimmtán ára dóttur sinni og því er hvarfið talið sjálfsvíg.

Sjö mánuðum síðar finnst illa farið lík í Grábrókarhrauni. Á sama tíma er rakin saga móður sem liggur á fæðingardeild fimmtán árum áður og vill ekkert hafa með barnið í fanginu á sér,“ segir Eva Björg þegar hún er innt eftir innihaldi nýju bókarinnar.

„Meira get ég ekki sagt án þess að segja of mikið,“ bætir hún við.

Eins og áður segir vakti „Marrið í stiganum“ mikla athygli. Eva Björg segir að hún hafi verið með marga bolta á lofti þegar kom að því að hefjast handa við „Stelpur sem ljúga.“

„Markmiðið var að byrja á henni um leið og ég lauk við Marrið í stiganum. Ég eignaðist dóttur mína á þessum tímapunkti og það var ekki alveg raunhæft að skrifa mikið með hana svona litla.

Ég byrjaði í rauninni á þessari sögu í byrjun þessa árs og var ekki nema 3-4 mánuði að skrifa fyrsta uppkastið. Það var að mörgu leyti öðruvísi að skrifa þessa þar sem ég var með ákveðna tímapressu og ég vissi að einhver myndi lesa hana.

Þegar ég skrifaði Marrið í stiganum var ég ekki með það í huga og gat verið eins lengi og ég vildi með það verkefni. Ég myndi því segja að það hafi að einhverju leyti verið aðeins erfiðari að skrifa þessa, þó maður reyni nú að hugsa sem minnst um hversu margir muni lesa hana.

Hún hefur auðvitað verið keypt af bresku útgáfufyrirtæki eins og Marrið í stiganum. Þar sem ég gerði snemma á árinu tveggja bóka samning þar í landi,“ segir Eva Björg Ægisdóttir við skagafrettir.is.

Eva er eins og áður segir frá Akranesi en foreldrar hennar eru Ægir Jóhannsson og Sigríður Björk Kristinsdóttir.

http://localhost:8888/skagafrettir/2018/04/24/eva-bjorg-verdlaunud-fyrir-spennusoguna-marrid-i-stiganum/
http://localhost:8888/skagafrettir/2018/05/15/marrid-slaer-i-gegn-skagakonan-eva-bjorg-efst-a-metsolulistanum/
http://localhost:8888/skagafrettir/2019/05/29/eva-bjork-i-ahugaverdu-vidtali-um-marrid-i-stiganum/