„Ómetanlegur stuðningur og mikil hvatning“ – Hollvinir HVE afhentu 12 sjúkrarúm


Það ríkti einlæg gleði þegar 12 sjúkrarúm af gerðinni Eleganza voru afhent með formlegum hætti í Heilbrigðisstofnun Vesturlands í dag.  

„Ég vil fyrir hönd stofnunarinnar þakka stjórn Hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunar Vesturlands fyrir þetta frábæra framtak,“ sagði Jóhanna Fjóla Jóhannsdóttir forstjóri HVE þegar Hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunar Vesturlands afhentu stofnunni ný sjúkrarúm miðvikudaginn 23. október.  

Um miðjan apríl fór af stað söfnun á vegum samtakanna þar sem að verkefnið var að safna fé fyrir nýjum sjúkrarúmum fyrir HVE. Söfnunin gekk vonum framar og alls söfnuðust 7,6 milljónir kr. en andvirði gjafarinnar er 6,5 milljónir kr.

Samtökin eru með 8,5 milljónir kr. til ráðstöfunar á bankareikning sínum og verður því fé ráðstafað í næstu verkefni en af nógu er að taka þegar kemur að því að bæta tækjakost HVE. 

Hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunar Vesturlands voru stofnuð þann 25. janúar árið 2014.

Frá þeim tíma hafa 300 manns gerst félagar í samtökunum. 

Frá árinu 2014 hefur HVE fengið búnað og tæki að upphæð 74.381.912 kr. í gegnum safnanir Hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunar Vesturlands. 

Steinunn Sigurðardóttir formaður samtakanna sagði í ávarpi sínu að hvatinn að stofnun Hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunar Vesturlands hafi verið sá að íbúar á Vesturlandi hafi í gegnum tíðina haft sterkar skoðanir á mikilvægi heilbrigðisþjónustunnar og að slík þjónusta sé hornsteinn góðra búsetuskilyrða. 

„Hlutverk Hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunar Vesturlands er að fylgja eftir þessari skoðun eftir og fá til liðs við það verkefni sem flesta íbúa og fyrirtæki á Vesturlandi,“ sagði Steinunn. 

Jóhanna Fjóla sagði að það væri gleðilegt fyrir starfsfólk HVE að finna fyrir svona öflugum stuðningi úr nærsamfélaginu. 

„Það er okkur stjórnendum stofnunarinnar sönn ánægja að taka á móti svona fjölmennum hópi hér í dag. Og gleðilegt að sjá hversu margir hafa ákveðið að styðja við bakið á þessu frábæra framtaki Hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunar Vesturlands. Þau hafa sýnt enn og aftur hversu öflug þau eru.

Fyrir okkur sem hér störfum er slíkur stuðningur ómetanlegur og mikil hvatning. Sú fjölbreytta starfssemi sem einkennir HVE gerir það að verkum að stofnunin þarf ávallt á miklum tækjabúnaði að halda sem kostar mikla fjármuni. Þessi tæki eru notuð til ýmiskonar inngrips, rannsókna og eftirlits á sjúklingum.

Það er sameiginlegt öllum þeirra sem leggjast hér inn að þeir þurfa sjúkrarúm. Þetta er sá búnaður sem er í mestri notkun hér á HVE. Hér á Akranesi eru 44 sjúkrarúm sem flokkast undir bráðarými. 

Til þess að setja þörfina í samhengi þá var fjöldi sjúklinga sem lagður var inn á stofnanir HVE hér á Vesturlandi 2.900 og þar af voru 2.146 á Akranesi.

Það eru að meðaltali 35 einstaklingar hér inni á Akranesi á hverjum degi. Þessi gjöf mun því nýtast mörgum. Og sjúkrarúmin sem samtökin afhenda í dag uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru í dag. Sjúkrarúmin hafa verið á lista hjá okkur í nokkur ár, við höfum alltaf þurft að taka önnur tæki framyfir. Náum ekki að kaupa nema helming þeirra tækja sem þörf er á árlega.

Við erum glöð og þetta er frábær árangur, að fá þessu rúm á einu ári, við vorum að gæla við að kaupa fjögur rúm á hverju ári, 12 ár. Slíkt framlag færir okkur á nýjar slóðir, stuðningurinn sem felst í þessum gjöfum stuðlar að því að við getum viðhaldið þjónustu í háum gæðaflokki,“ sagði Jóhanna Fjóla m.a. í ávarpi sínu. 



Sjúkrarúmin sem afhent voru eru merkt gefendum en hver merking er verðlögð á 125.000 kr. ef aðilar sameinast öðrum kostendum í verkefninu. Þeir sem standa einir á bak við kostunina lögðu fram 500.000 kr.  Steinunn Sigurðardóttir, formaður samtakanna, nefndi í ræðu sinni að margir aðilar hafi lagt fram vinnu sína í þessari söfnun líkt og áður. Þar tók hún sem dæmi fyrirtæki eins og ÞÞÞ sem hafi séð um flutninga á sjúkrarúmunum án þess að taka greiðslu fyrir. Verkalýðsfélag Akraness lagði fram 1,5 milljónir kr. eða sem nemur þremur sjúkrarúmum í þessa söfnun.

Eftirtaldir aðilar og fyrirtæki komu að þessari söfnun. 

Lionsklúbbur Borgarness,
Bifreiðastöð ÞÞÞ Akranesi,
DalaJötnar efh Búðardal,
Halldór B. Hallgrímsson,
Vignir G. Jónsson efh,
Verkalýðsfélag Akraness,
Trélausnir sf Borgarbyggð,
Sigur-Garðar sf Borgarbyggð,
Kvenfélag Borgarness,
Til minningar um Sigríði Guðjónsdóttur,
Brim hf,
Kiwanisklúbburinn Þyrill á Akranesi,
FEBAN-kórinn/Karlakórinn Svanir og Tamango á Akranesi,
Hvalfjarðarsveit,
Sparisjóður Strandamanna,
Kvenfélagið 19. júní Hvanneyri,
Trésmiðjan Akur Akranesi, Akraneskaupstaður,
Gísli S. Jónsson efh. Akranesi
Og einnig aðilar sem ekki vildu láta nafn síns getið. 

Hollvinasamtökin voru stofnuð árið 2014 eins og áður segir og hafa samtökin afhent HVE búnað og tæki að upphæð 74.381.912 kr.

Árið 2015 –  49.032.316. kr
Árið 2016 –  1.655.084 kr.
Árið 2017 –  11.971.278 kr.
Árið 2018 –  2.600.000 kr.
Árið 2019 –  2.653.931 kr (maí).
+ 6.469.303 kr. (október)

Steinunn Sigurðardóttir.
Steinunn Sigurðardóttir og Jóhanna Fjóla Jóhannsdóttir.
Steinunn Sigurðardóttir og Jóhanna Fjóla Jóhannsdóttir.
Jóhanna Fjóla Jóhannsdóttir ávarpar fundinn.
Gísli Gíslason, framkvæmdarstjóri Faxaflóahafna tók að sér að prófa nýju sjúkrarúminn.
Gísli Gíslason, framkvæmdarstjóri Faxaflóahafna tók að sér að prófa nýju sjúkrarúminn.
Fulltrúi frá Lionsklúbbi Borgarness merkir eitt af rúmunum 12.
Linda Björk Pálsdóttir sveitastjóri Hvalfjarðarsveitar merkir eitt af sjúkrarúmunum.
Halldór Stefánsson merkir eitt af sjúkrarúmunum.
Geir Geirsson, húsasmíðameistari úr Borgarnesi vandaði sig við verkið.
Geir Geirsson, húsasmíðameistari úr Borgarnesi vandaði sig við verkið.
Erla Dís Sigurjónsdóttir og Gísli S. Jónsson tóku þátt í verkefninu.