Skagakonan Edit með bestu stafrænu lausnina á Gullegginu 2019


„Hugbúnaðurinn sem við fengum verðlaun fyrir er gagnvirkur dómsalur í sýndarveruleika þar sem þolendur kynferðisofbeldis geta komið með sínum fagaðila og æft sig í öruggu umhverfi,“ segir Skagakonan Edit Ómarsdóttir sem fékk Gulleggið 2019 ásamt Helgu Margréti Ólafsdóttur og Hafdísi Sæland fyrir bestu stafrænu lausnina á uppskeruhátíð keppninnar í síðustu viku.

Gulleggið er frumkvöðlakeppni Icelandic Startups sem haldin er í Háskóla Íslands í ár.

Nánar um Gulleggið hér:

„Við vorum ekkert endilega að búast við neinu, enda ótrúlega mikið af frábærum hugmyndum, um 90% hugmyndanna eru stafrænar þannig við vorum að sjálfsögðu í skýjunum þegar við áttuðum okkur á því að við höfðum hlotið verðlaun í þessum flokki,“ segir Edit er hugbúnaðarsérfræðingur hjá tæknifyrirtækinu Origo og lýkur tölvunarfræðinámi við Háskólann í Reykjavík í desember á þessu ári.

Edit segir að á næstu mánuðum og misserum verði verkefni þeirra rannsakað enn frekar og það verði nóg að gera hjá frumkvöðlunum þremur.

Skjáskot af sýndarveruleika í dómsal.

„Sálfræðideild Háskólans í Reykjavík fer í byrjun næsta árs af stað með rannsókn. Markmiðið er að staðfest að nytsemina af dómsal í sýndarveruleika.. Eftir það prófunarferli verður farið í það að koma sýndardómsalnum inn í ferlið hjá þolendum kynferðisofbeldis,“ bætir Edit við.

Edit er hér fyrir miðju ásamt Helgu Margréti Ólafsdóttur og Hafdísi Sæland.

Hún er búsett á Akranesi ásamt maka sínu Davíð Reyni Steingrímssyni, dætur þeirra eru Saga Dís 11 ára og Hekla María 8 ára.

Foreldrar Editar eru Lilja Kristófersdóttir sem er búsett á Akranesi og Ómar Örn Ragnarsson sem býr í Borgarnesi. Stjúpfaðir Editar og eiginmaður Lilju er Skúli Bergmann Garðarsson.

Systkini Editar eru þau Jón Örn Ómarsson, Kristrún Skúladóttir, Kristján Örn Ómarsson, Gunnar Örn Ómarsson.

Gulleggið er tækifæri fyrir frumkvöðla til að koma hugmyndum sínum á framfæri og gera úr þeim raunverulegar og markvissar áætlanir sem miða að stofnun fyrirtækja.

Samhliða keppninni er þátttakendum boðið upp á námskeið, ráðgjöf og aðstoð sérfræðinga. Frá mótun hugmyndar til áætlanagerðar og þjálfunar í samskiptum við fjárfesta.

Þátttaka í Gullegginu er skemmtileg og krefjandi áskorun fyrir unga frumkvöðla sem á eftir að nýtast þeim inn í framtíðina. Sú reynsla og þekking mun síðan nýtast þegar út í atvinnulífið er komið, hvort sem það er hjá nýstofnuðum sprotafyrirtækjum eða stærstu fyrirtækjum landsins.