Vilja nýta varmaorku sem fer til spillis í verksmiðju Elkem á Grundartanga


Þróunarfélag Grundartanga og kísilver Elkem vinna nú að nýtingu þeirrar umframorku sem myndast við framleiðslu verksmiðjunnar. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.

Í framleiðsluferlinu myndast mikill varmi sem hingað til hefur ekki verið nýttur og er þar talað um glatvarma.

„Hugmyndin að baki því að nýta þennan glatvarma er að fanga þessa orku í stað þess að láta hana fara út í andrúmsloftið. Við gætum kannski endurheimt 70-80 megavött af varmaorku eða í kringum 20-30 megavött af raforku með þessu,“ segir Þorsteinn Hannesson, sérfræðingur hjá Elkem.

Ólafur Adolfsson, formaður Þróunarfélags Grundartanga, segir við Fréttablaðið að mikil tækifæri liggja í verkefninu.

Meðal þess sem nefnt hefur verið varðandi orkunýtingu er þörungarækt, fiskeldi og ylrækt. Nærtækasti kosturinn felist hins vegar í hitaveitu en hingað til hefur þurft að nýta raforku til að hita húsnæði og neysluvatn.

„Við höfum í rauninni unnið að þessu í rúmt ár núna og höfum verið að fikra okkur lengra og lengra. Núna erum við að teikna upp fýsileikann af verkefninu og skoða hvernig við komum þessu á koppinn,“ segir Ólafur m.a. en fréttin er í heild sinni hér.