Akraneskaupstaður þarf að greiða miskabætur vegna ráðningar forstöðumanns íþróttamannvirkja


Á dögunum féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna kæru sem barst vegna ráðningar forstöðumanns íþróttamannvirkja á Akranesi.

Í dómsorðum kemur fram að Akraneskaupstaður þarf að greiða stefnanda 700.000 kr. í miskabætur með dráttavöxtum.

Einnig þarf Akraneskaupstaður að greiða málskostnaðinn eða 1.500.000 kr.

Alls sóttu 17 aðilar um starfið á sínum tíma og í ráðningarferlinu voru fjórir aðilar boðaðir í ítarlegt viðtal.

Eftir það ferli var niðurstaðan að ráða Ágústu Rósu Andrésdóttur í starfið.

Sá aðili sem stefndi Akraneskaupstað taldi að um ólögmæta ráðningu hefði verið að ræða og að hæfasti umsækjandinn hafi ekki verið ráðinn í starfið.

„Augljóst sé að stefnandi hafi langtum meiri starfsreynslu og menntun til þess að gegna starfinu en sú sem ráðin var og í raun slíka yfirburði hvað þessa þætti varðar að telja verði ákvörðunina um ráðningu með öllu óskiljanlega, óeðlilega og ólögmæta,“ segir m.a. í stefnunni.

Sá sem stefndi Akraneskaupstað í þessu máli byggði einnig kröfu sína á því að huglægt mat matsaðila hafi verið gert að aðalatriðinu og að vikið hafi verið frá kröfum í auglýsingunni.

Dóminn má lesa í heild sinni hér: