Jaðarsbakkaverkefnið fær 500 milljónir kr. á árunum 2022-2023


Í fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar á árinu 2020 er gert ráð fyrir því fara í 100 milljóna kr. nýframkvæmdir á götum í Skógarhverfi.

Í þriggja ára fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir 500 milljónum kr. í uppbyggingu á íþróttasvæðinu við Jaðarsbakka, en þær framkvæmdir eiga að fara af stað á árunum 2022 og 2023.

Þetta kemur fram í fundargerð Bæjarráðs Akraness.

Rakel Óskarsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem er í minnihluta í Bæjarstjórn Akraness, lét bóka það sérstaklega á þeim fundi að það væri fagnaðarefni að meirihlutinn hefði tekið vel í hugmyndir minnihlutans sem lagðar voru fram á bæjarstjórnarfundi þann 12. okt. s.l.


„Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun verði endurskoðuð milli umræðna og sérstaklega verði skoðað hvernig flýta má uppbyggingu á Jaðarsbökkum sem bæði þjónar starfsemi Grundaskóla, íþróttafélögunum sem og öllum almenningi.
Að lokum leggur Sjálfstæðisflokkurinn til að auknir fjármunir verði settir í nýframkvæmdir gatna í Skógarhverfi fyrir seinni umræðu fjárhagsáætlunar 2020. Að öðrum kosti mun skortur verða á framboði nýrra einbýlis-, par- og raðhúsalóðum á Akranesi árið 2020. Slík staða er ekki ásættanleg fyrir bæjarfélag í sókn sem Akraneskaupstaður á að vera.“
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins fagnar því að bæjarráð gangi að ofangreindum hugmyndum og samþykki aukið fjármagn í nýframkvæmdir í gatnagerð um 100 mkr. sem og að koma uppbyggingu íþróttamannvirkja á Jaðarsbökkum aftur inn í þriggja ára áætlun Akraneskaupstaðar.
Rakel Óskarsdóttir (Sign)
http://localhost:8888/skagafrettir/2019/01/12/jadarsbakkasvaedid-gaeti-litid-svona-ut-i-framtidinni/