Frístundamiðstöðin við golfvöllinn hefur fengið formlegt nafn


Frístundamiðstöðin við golfvöllinn á Akranesi fékk í kvöld formlegt nafn. Greint var frá valinu á aðalfundi Golfklúbbsins Leynis sem fram fór í kvöld.

Mannvirkið var tekið í notkun í maí á þessu ári, aðeins rúmlega ári eftir að framkvæmdir hófust við bygginguna.

Frá því að verkefnið fór af stað hefur nafnið „Frístundamiðstöð“ verið notað um bygginguna.

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum fyrr á þessu ári að fela bæjarstjóranum Sævari Frey Þráinssyni það verkefnið að finna leið til þess að gefa Frístundamiðstöðinni formlegt nafn.

Í þeirri vinnu komu upp margar hugmyndir að nafni.

Garðavellir var niðurstaðan en frístundamiðstöðin stendur við golfvöllinn sem heitir Garðavöllur. Ólafur Grétar Ólafsson átti hugmyndina að nafninu. Þess má geta að Ólafur Grétar er faðir Þórðar Emils formanns Leynis sem lét af því embætti í kvöld á aðalfundinum.

Frá vinstri, Guðmundur Sigvaldason fráfarandi framkvæmdastjóri Leynis,
Ólafur Grétar Ólafsson og Þórður Emil Ólafsson fráfarandi formaður Leynis.
Mynd/Magnús Brandsson
.