Pistill: Leiðsögn og fingraför minnihluta Sjálfstæðisflokksins


Aðsend grein frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Akraness

Mikilvægasta hlutverk minnihluta sveitarstjórnar hverju sinni er að veita meirihluta aðhald og reyna af fremsta megni að leiða hann á réttar brautir, sé þess þörf. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Akraness taka hlutverk sitt í minnihluta mjög alvarlega og hafa staðið vörð um þá skýru framtíðarsýn sem sköpuð var í síðustu bæjarstjórn og að ráðist verði í þau nauðsynlegu verkefni sem undirbúin hafa verið af kostgæfni.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa bent á að ákveðið stefnuleysi hefur ríkt í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar á þessu kjörtímabili.  Vinnubrögð núverandi meirihluta við gerð upphaflegra fjárhagsáætlana hafa einkennst af skorti á langtímasýn því eingöngu er horft til eins árs í senn við gerð hennar. Með skýrri framtíðarsýn, vel ígrundaðri þarfagreiningu og góðri þekkingu á fjárfestingar- og rekstrargetu sveitarfélagsins getur bæjarstjórn betur tekið stefnumótandi ákvarðanir um þjónustu við íbúa og fjárfestingar til framtíðar.

Fjárhagsáætlun 2020

Í undirbúningi bæjarráðs að fjárhagsáætlun 2020 hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt áherslu á að efla lögbundna þjónustu sem og á þau verkefni sem skapað geta sveitarfélaginu auknar framtíðartekjur. Bæjarstjórnin var samstíga í því að virða Lífskjarasamningana og tilmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga um að hækka gjaldskrár ekki umfram 2,5%. Þar sýnum við gott fordæmi og gerum í raun betur en mörg önnur sveitarfélög.

Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2020 og framkvæmdaáætlun fyrir árin 2020-2023, sem samþykktar voru í bæjarstjórn í gær, bera þess skýrt merki að gott aðhald minnihluta er nauðsynlegt. Verkefni sem undirbúin voru á síðasta kjörtímabili, svo sem fimleikahús við Vesturgötu, reiðskemma hestamannafélagsins Dreyra, uppbyggingu á Dalbrautarreit og ný grunnsýning á Byggðasafni ættu því að óbreyttu að verða að veruleika á árunum 2020 og 2021.

Lækkun fasteignaskatts

Á undanförnum árum hefur fasteignamat á Akranesi hækkað mikið. Óbreytt álagningarprósenta hefði leitt af sér stórhækkun fasteignaskatts á heimili og fyrirtæki í bænum. Á síðasta kjörtímabili undir forystu Sjálfstæðisflokksins og Bjartrar framtíðar var  ákveðið að lækka álagningarprósentuna.  Í undirbúningi fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020 lagði Sjálfstæðisflokkurinn til lækkun fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði  um 11,4%. Tillagan var samþykkt og varð ein af forsendum við áætlunargerðina. Sjálfstæðisflokkurinn telur þetta vera mikilvægt skref í eflingu atvinnulífs á Akranesi og til þess fallið að auka samkeppnisforskot sveitarfélagsins. 

Velferð framar gæluverkefnum

Til stóð að leggja hagræðingarkröfu á velferðarsvið sem þýðir á mannamáli lækkun fjárframlaga til velferðarmála. Því voru bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótfallnir og lögðu þess í stað til að fallið yrði frá verkefnum á borð við flóasiglingar og bætta aðstöðu til keiluiðkunar í íþróttahúsinu að Vesturgötu. Hvorugt þeirra verkefna telst til lögbundinnar þjónustu sveitafélagsins.  Nokkuð skorti á að undirbúningur vegna þeirra verkefna væri nægilegur og þurfti meirihlutinn því að kalla eftir frekari gögnum frá Keilufélaginu á milli fyrri og seinni umræðu um fjárhagsáætlunina!

Lærdómssamfélagið á Akranesi

Að tillögu Sjálfstæðisflokksins var haldið vel heppnað íbúaþing um lærdómssamfélagið á Akranesi nú í haust og er ætlunin að leggja af stað í endurskoðun skólastefnu kaupstaðarins á nýju ári í samvinnu allra flokka í bæjarstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur jafnframt tekið þátt í undirbúningi að ákvörðun um byggingu á nýjum leikskóla og hefur verið horft til hugmynda frá síðasta kjörtímabili um að nýta húsnæði leikskólans Garðasels til að auka rými í Grundaskóla sem býr við þröngan kost. Sjálfstæðisflokkurinn styður við uppbyggingu sem styrkir stoðir fjölskyldunnar í samfélaginu hér á Akranesi. Þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt til breytingar á skipan mötuneytismála í stofnunum bæjarins og er starfshópur að störfum þar að lútandi undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Leiðarljósið er að auka fjölbreytni, gæði og öryggi þegar kemur að fæði fyrir nemendur, starfsfólk og skjólstæðinga bæjarins.

Uppbygging á Jaðarsbökkum?

Sjálfstæðisflokkurinn vakti athygli á því við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar fyrir skömmu að uppbyggingu á Jaðarsbökkum var slegið á frest. Slíkt er óásættanlegt. Verkefnið er mjög  metnaðarfullt og mun mannvirkið nýtast vel skólasamfélaginu, íþróttahreyfingunni og styður við stefnu um heilsueflandi samfélag sem Akranes er nú þátttakandi í. Samþykkt var um síðir að verja fjármunum á árinu 2021-2023 til verksins. Sjálfstæðisflokkurinn fagnar því en betur má ef duga skal, því þeir fjármunir duga skammt. 

Nýframkvæmdir í gatnagerð

Þá lagði Sjálfstæðisflokkurinn til að auknir fjármunir yrðu settir í nýframkvæmdir gatna í Skógarhverfi fyrir seinni umræðu fjárhagsáætlunar enda annars yfirvofandi skortur á nýjum einbýlis-, par- og raðhúsalóðum á Akranesi strax á næsta ári. Slíkt er ekki ásættanlegt fyrir bæjarfélag í þeirri sókn,  sem Akraneskaupstaður á að vera. Gengið var að þeirri tillögu okkar.  

Forvarnarmál unga fólksins

Á dögunum var haldinn 18. bæjarstjórnarfundur unga fólksins. Þar var kallað eftir auknu fjármagni í forvarnarmál, svokallaða jafningafræðslu. Sjálfstæðisflokkurinn lagði til að verja einni milljón í þetta mikilvæga verkefni og stefna að því gera slíkt hið sama næstu ár. Tillagan var samþykkt í bæjarráði sem er gott fyrsta skref í þessu mikilvæga verkefni.

Fingraför meirihlutans.

Á milli umræðna óskaði meirihlutinn eftir frekari greiningu á málefnum Keilufélagsins. Niðurstaða þeirra var að verja 40 milljónum króna á árinu 2020 í þetta verkefni. Sjálfstæðisflokkurinn er algjörlega mótfallinn þessari forgangsröðun fjármuna. Ástæða þess liggur í þeim fjölmörgu verkefnum sem fagráð sveitarfélagsins lögðu áherslu á í undirbúningi fjárhagsáætlunar og fá ekki brautargengi núverandi meirihluta. Fyrir þessa fjárhæð væri hægt að efla lögbundna þjónustu sveitarfélagsins, sem fagráðin kölluðu eftir og bænum ber að sinna.

Fingraför Sjálfstæðisflokksins.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa miklar áhyggjur af búsetuúrræðum fyrir fatlaða einstaklinga á Akranesi og hafa komið þeim áhyggjum á framfæri í bæjarráði. Hafa þarf hraðar hendur á fyrstu mánuðum nýs árs og leggja grunn að þeirri stefnu sem bærinn hyggst taka til framtíðar í málaflokknum. Það þolir að okkar mati enga bið. Fulltrúar minnihlutans eru ánægðir með fingraför sín á fjárhagsáætlun ársins 2020. Þau atriði sem nefnd eru hér að framan falla öll að þeirri stefnu sem Sjálfstæðisflokksins mótaði á síðasta kjörtímabili og í kosningabaráttu sinni árið 2018. 

Lögbundnum verkefnum verður alltaf að sinna fyrst og fremst.  Aðeins þannig sköpum við eftirsóknarvert samfélag.  

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Akraness
Rakel Óskarsdóttir
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir
Einar Brandsson
Ólafur Adolfsson