Pistill um elsku gamla „unga fólkið okkar

Pistill þessi er skrifaður árið 2018, ég er búin að gefa mér ár í að hugsa hvort ég ætti að birta þetta. Ég hef látið af störfum sem sjúkraliði því ég læt ekki bjóða mér hvað sem er.

Birgitta Þura Birgisdóttir, skrifar.

Ég er að skrifa um elsku gamla og „unga“ fólkið okkar sem streðað hefur alla sína hunds- og kattartíð fyrir nákvæmlega okkur.

Ég vinn sem sjúkraliði á deild á sjúkrahúsi Akraness þar sem fólk er að bíða eftir því að fara á hjúkrunarheimili eða „endastöðina“ að margra sögn.
Við vinnum í samstarfi við Landspítalann og eru nánast allir sjúklingar sem koma úr Reykjavík – örfáir utan af landi en hafa búið í Reykjavík og nágrenni.

Það sem ég horfi upp á og að sögn gamla fólksins okkar og nánustu aðstandenda að heilbrigðisstarfsfólk er með símann nánast límdan á sér, sem á í alvöru talað ekki að eiga sér stað nema inni á vaktstofu og alls ekki fyrir augum sjúklinga sem vita nánast ekki hvaða tæki þetta er, ef ég tek sem dæmi: að ef við erum að labba með sjúklingi, tala við hann, sinna honum eða með honum á klósettinu, þá er síminn algert bann-banntæki.

Að sjálfsögðu getum við verið að bíða eftir nauðsynlegum símtölum þá ætti það ekki að vera tiltökumál.
Birgitta Þura.

Því sem ég er mest hlynnt er að gera sem mest með þeim, það sem þau geta.. til dæmis að fara út ef gott er veður (oft eru þau obbossins kuldaskræfur) en þá er hægt að fara í göngutúr innandyra, spila, við þau, lesa, púsla, spjalla, prjóna/sauma með þeim, nú eða lesa blaðið. Sumir kjósa að sjálfsögðu að vera inni hjá sér að hlusta á sína tónlist, hljóðbók, útvarpið eða gera nákvæmlega það sem þeim dettur í hug. Það er alltaf ein stúlka sem oftast er sjúkraliði sem skráð er á tiltekna afþreygingavakt, oftast eru flestir sem taka þátt í þeim viðburðum.

Svo ég ræði aðeins um sjúklinga frá 58-75 ára sem blandaðir eru öldruðum frá 76-97 ára (sem eru hjá okkur), hvaða samleið hafa þessir „ungu“ með þeim öldruðu? …nákvæmlega enga. Það þarf klárlega að búa til úrræði í samfélaginu fyrir þessa tilteknu tvo hópa.

Ég hef sjálf orðið vitni af því að þeir „ungu“ vilja komast burt sem allra fyrst því þetta fólk hefur engin sameiginleg áhugamál með eldra fólkinu, þessir öldruðu heyra oft (ekki alltaf) verr en þeir “ungu” og þeir geta ekki með nokkru móti átt góðar samræður og oft á sér stað mikill misskilningur þar sem annar aðilinn verður kvíðnari og óöruggari en áður. Auðvitað geta auðvitað átt sér stað dæmi þar sem „ungu“ og eldri smellpassa saman.

Ég ELSKA mína sjúkraliða vinnu alveg hreint út í eitt.

Ég gleymi því í nærveru þeirra að þurfi að þurrka munnvik, skeina, taka úr þvagleggi, nálar, hjálpa fólkinu í og úr rúmi, díla við kvíða, depurð og sorg, tannbursta, losa stómapoka, þvagpoka og í raun alls sem þau þarfnast vegna þess að ég met mitt starf mikils og vildi ég óska þess svo heitt og innilega að enginn sé í þeirri stöðu að líða illa útaf starfsfólki eða aðstandendum, ég myndi hiklaust taka sjúklinga með mér heim ef ég hefði aðstöðu eða getu til. Við erum með þeim bæði yfir öll jól og áramót.

Ég sjálf er á þrítugsaldri og á 35+ ár eftir af starfsævinni. Oft hef ég horft upp á margar þrekraunir sjúklinga og aðstandenda, þetta er erfitt bæði andlega og líkamlega, þar er alls enginn efi og myndi ég segja öllum það hiklaust.

Hjá okkur eru erfið dauðsföll, mjög þungir sjúklingar sem þarfnast lyftu í og úr hjólastól, góð- og illkynja sjúkdómar, geðsjúkdómar og allskyns verkefni bæði létt og erfið sem við tökumst á við og gerum vel.

Þeir sjúklingar sem koma til okkar vilja oftast ekki koma til okkar í svona biðstöðu, þeir verða ringlaðir og óöruggir.. vita ekki hvort þeir eru að koma eða fara. EN á hinn bóginn þegar sjúklingarnir okkar fá pláss á hjúkrunarheimili vilja þeir alls ekki fara frá okkur, sem hlýtur að vera ágætis hrós fyrir okkur sem starfsfólk – lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og starfsmenn.

Laun sjúkraliða eru alls ekki upp á marga fiska og ætti aldeilis að virða okkur meira en ríkið gerir.

Oft finnst mér, sem sjúkraliða, margir meta okkur lítilsháttar og sem einskonar gólftusku.

Hvernig eigum við – þessir ungu sjúkraliðar að safna okkur fyrir íbúð? Framleyta börnunum okkar? …ég sé ekki fram á að geta það sem sjúkraliði í dag, sem er hrikalegt.

Hvernig fer ef sjúkraliðastétt deyr út vegna þess að þið sem eruð í ríkisstjórn getið ekki hækkað launin okkar?

Guð hjálpi okkur öllum.

Það er örugglega ekki einn einasti úr þessari aumu ríkisstjórn sem sér þetta en hvað viljið þið þegar þið verðið orðin gömul og grá - eða "ung" og ósjálfráð?

Það erum við, læknar og hjúkrunarfræðingar sem sjáum um ykkur ef eitthvað fer úrskeiðis heilsunnar vegna.

Þið verðið að átta ykkur á því að fólk er að yngjast upp – vegna lyfja, umönnunar og lífsháttar.

Þetta heilbrigðiskerfi er gjörsamlega alveg út í hött og þarf að laga undir eins!! Annars eigið þið eftir að missa (í alvöru talað) góða… MJÖG góða sjúkraliða sem hafa áhuga á sínu starfi.

Hugsunin um þennan pistil er bæði um aðstandendur, sjúklinga og okkur öll sem sjáum um þá.

Kveðja Birgitta Þura – FYRRUM sjúkraliði á HVE Akranesi.