Skortur á heitu vatni á Akranesi – Jaðarsbakkalaug lokað


Skortur er á heitu vatni á Akranesi og eru íbúar beðnir um að fara sparlega með heita vatnið. Jaðarsbakkalaug hefur verið lokað en þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum.


Í gær sögðum við ykkur frá því að vegna bilana væri afar lág birgðastaða í heitavatnstönkunum okkar. Ekki bætti úr skák að vegna rafmagnstruflana hjá Landsneti var ekki hægt að dæla í þá af fullum krafti. 
Nú er staðan sú að við þurfum að spara enn meira heitt vatn til að geta haldið uppi þjónustu við heimili og hefur því sundlauginni verið lokað. 
Hversu lengi það ástand varir veltur á því hversu langan tíma tekur að fylla tankana. Það er kuldatíð í vændum og því mikilvægt að halda húsum heitum. 
Við biðjum ykkur að fara vel með heita vatnið, ekki láta renna í heita potta, hafa glugga lokaða og dyr ekki opnar lengur en nauðsyn krefur. 
Við vonum að þetta skapi sem minnst óþægindi og þökkum ykkur skilninginn. 
Njótið aðventunnar.