Valdís Þóra Jónsdóttir, kylfingur ársins 2019


Þann 6. janúar næstkomandi verður tilkynnt um val á Íþróttamanni Akraness árið 2019. Athöfnin fer fram í Íþróttahúsinu á Jaðarsbökkum að lokinni þrettándabrennu.

Opnað hefur verið fyrir kosningu HÉR í þjónustugátt Akraneskaupstaðar og er kosningin opin frá 20. til og með 29 desember. 

Kylfingur ársins: Valdís Þóra Jónsdóttir

Valdís Þóra er fædd árið 1989 og spilar golf með Golfklúbbnum Leyni. Valdísi Þóru þarf ekki að kynna fyrir Skagamönnum, Íslandsmeistari í golfi, margfaldur klúbbmeistari Golfklúbbsins Leynis og einn fremsti kylfingur meðal kvenna til margra ára og atvinnumaður í golfi.

Valdís Þóra var valin kvenkylfingur ársins af Golfsambandi Íslands (GSÍ) árið 2019 og er það í þriðja sinn sem hún hlýtur þá viðurkenningu.

Valdís Þóra hefur allt frá unglingsaldri verið með skýr markmið sem hún hefur unnið markvisst að hvort sem er með æfingar í huga, Íslandsmeistaratitla, þátttöku í landsliðsverkefnum og nú sem atvinnumaður í golfi. Valdís Þóra er góð fyrirmynd fyrir alla kylfinga og íþróttafólk og hefur ávallt verið til fyrirmyndar innan sem utan vallar.

Helstu afrek Valdísar Þóru á Íslandi á árinu:

  • Valdís Þóra keppti lítið á Íslandi þetta árið sökum anna við keppni erlendis.

Helstu afrek Valdísar Þóru erlendis á árinu:

  • Valdís Þóra spilaði erlendis keppnistímabilið 2019 á LET mótaröðinni sem er sterkasta mótaröð kvenna í Evrópu og einnig LET Access mótaröðinni sem er önnur sterkasta mótaröð kvenna í Evrópu.
  • Tryggði sér takmarkaðan keppnisrétt á LET mótaröðinni fyrir keppnistímabilið 2020.
  • Tók þátt í úrtökumótum fyrir LPGA mótaröðina sem talin er sterkasta kvennamótaröðin. Því miður náði Valdís ekki að tryggja sér keppnisrétt fyrir tímablið 2020.

Hvernig stendur Valdís Þóra á landsvísu?

  • Valdís Þóra var valin kvenkylfingur ársins af Golfsambandi Íslands (GSÍ) og var það í þriðja sinn sem hún hlýtur þá viðurkenningu.
  • Valdís Þóra keppir sem atvinnumaður í golfíþróttinni og hefur um langt skeið verið einn besti kvenkylfingurinn sem Ísland á. Hún er margfaldur Íslandsmeistari í flokki unglinga og fullorðinna og er klúbbnum sínum til sóma.

Opnað hefur verið fyrir kosningu HÉR í þjónustugátt Akraneskaupstaðar og er kosningin opin frá 20. til og með 29 desember. 

http://localhost:8888/skagafrettir/2019/12/23/hver-verdur-ithrottamadur-akraness-2019-thu-getur-tekid-thatt-og-kosid/