Hver verður Íþróttamaður Akraness 2019? – þú getur tekið þátt og kosið!


Þann 6. janúar næstkomandi verður tilkynnt um val á Íþróttamanni Akraness árið 2019. Athöfnin fer fram í Íþróttahúsinu á Jaðarsbökkum að lokinni þrettándabrennu.

Opnað hefur verið fyrir kosningu HÉR í þjónustugátt Akraneskaupstaðar og er kosningin opin frá 20. til og með 29 desember. 

Hér fyrir neðan er kynning á íþróttafólkinu og helstu afrekum þeirra.


Badmintonmaður ársins: Drífa Harðardóttir

Drífa býr og æfir í Danmörku þar sem hún spilar með Hvidovre en hefur þó allan sinn feril spilað fyrir ÍA á Íslandi. Hún hefur orðið Íslandsmeistari 9 sinnum, fjórum sinnum í tvíliðaleik og fimm sinnum í tvenndarleik. Drífa er eina konan sem hefur orðið Íslandsmeistari í meistaraflokki fyrir ÍA og sú sem oftast hefur orðið Íslandsmeistari í meistaraflokki undir merkjum ÍA.

Drífa Harðardóttir.

Drífa keppti í ágúst á Heimsmeistaramóti öldunga í tvenndar- og tvíliðaleik og varð heimsmeistari í tvíliðaleik kvenna í 40-45 ára flokki. Drífa kíkir á æfingar hjá ÍA þegar hún kemur til landsins og er alltaf til í að leiðbeina og aðstoða krakkana og veita þeim harða keppni á æfingum. Drífa er góð fyrirmynd fyrir badmintonkrakka á Akranesi, bæði innan vallar og utan.

Helstu afrek Drífu á Íslandi á árinu:

  • Íslandsmeistari í meistaraflokki í tvíliðaleik kvenna.
  • 3.-4. sæti í tvenndarleik í meistaraflokki á Íslandsmóti.
  • Helstu afrek Drífu erlendis á árinu:
  • Heimsmeistari í tvíliðaleik kvenna í 40-45 ára flokki.

Hvernig stendur Drífa á landsvísu?

  • Drífa er ein af bestu tvíliða- og tvenndarleiksspilurum á Íslandi.

Fimleikamaður ársins: Sóley Brynjarsdóttir

Fimleikafélag Akraness tilnefnir Sóleyju Brynjarsdóttur fimleikakonu ársins 2019. Sóley er fædd árið 2001 og er uppalin í félaginu. Hún æfir hópfimleika með meistaraflokki FIMA og er fastamaður í liðinu.

Sóley er metnaðargjörn og dugleg. Hún er smitar jákvæðni út í hópinn og er ómissandi í liði sínu hvað varðar liðsanda og er liðsfélögum sínum mikil hvatning. Sóley er ein af elstu iðkendum félagsins og á hún bjarta framtíð í greininni. Sóley þjálfar einnig yngri flokka hjá félaginu með miklum mentaði og góðum árangri. Hún er vel liðin af iðkendum, samstarfsmönnum og liðsfélögum. Sóley er frábær fimleikakona og fyrirmynd og er vel að titlinum komin.

Helstu afrek Sóleyjar á Íslandi á árinu:

  • Fastamaður í meistaraflokki FIMA í A-deild.
  • Í liði FIMA sem sigraði GK deildarmeistaramótið.
  • Þriðja sæti í meistaraflokki á Íslandsmótinu með liði FIMA.
  • Fjórða sæti á WOW bikarmóti með liði FIMA.

Hvernig stendur Sóley á landsvísu?

  • Sóley keppir með liði sínu í A-deild meistaraflokka en aðeins tvö önnur félög á Íslandi eiga lið i efstu deild.

Opnað hefur verið fyrir kosningu HÉR í þjónustugátt Akraneskaupstaðar og er kosningin opin frá 20. til og með 29 desember. 


Hestaíþróttamaður ársins: Jakob Svavar Sigurðsson

Jakob Svavar er fæddur árið 1975 og æfir með Hestamannafélaginu Dreyra. Jakob er einn af bestu íþróttaknöpum á landinu og hefur skipað sér í fremstu röð í íþróttinni í mörg ár og unnið marga Íslandsmeistaratitla auk heimsmeistaratitils.

Hann er agaður keppnismaður en þó ávallt prúður og til fyrirmyndar. Hann hefur hlotið mörg verðlaun fyrir góða reiðmennsku og prúðmennsku. Jakob sýnir hesta sína af öryggi og hefur fumlaust og létt taumsamband við hrossin sem undirstrikar hæfileika hestsins. Jakob Svavar er fyrirmynd allra þeirra sem vilja ná árangri á vettvangi hestaíþrótta.


Helstu afrek Jakobs Svavars á Íslandi á árinu:

  • Sigurvegari í einstaklingskeppni meistaradeildarinnar í hestaíþróttum árið 2019 með eftirfarandi árangri: 1. sæti í fimmgangi, 1. sæti í tölti, 1. sæti í slaktaumatölti og 3. sæti í fjórgangi.
  • 2. sæti í fimmgangi á Íslandsmótinu í hestaíþróttum.
  • 4. sæti í fjórgangi á Íslandsmótinu í hestaíþróttum.
  • 2. sæti í tölti á Reykjavíkurmeistaramótinu í hestaíþróttum.
  • 2. sæti í fjórgangi á Reykjavíkurmeistaramótinu í hestaíþróttum.
  • 3. sæti í tölti T2 á WR íþróttamóti Sleipnis.
  • 4. sæti í tölti T1 á WR Íþróttamóti Sleipnis.
  • 1. sæti í fjórgangi í Fákasels mótaröðinni.
  • 2. sæti í fimmgangi í Fákasels mótaröðinni.
  • 1. sæti í tölti T3 í Fákasels mótaröðinni.

Helstu afrek Jakobs Svavars erlendis á árinu:

  • Jakob Svavar er í landsliðshópi Landssambands hestamanna og keppti fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótinu í hestaíþróttum á árinu 2019 á Júlíu frá Hamarsey. Þau voru þriðju inn í a-úrslit í slaktaumatölti en enduðu í 5. sæti.

Hvernig stendur Jakob Svavar á landsvísu?

  • Jakob Svavar er í landsliðshópi LH en hann skipa 19 afreksknapar í fremstu röð í hestaíþróttum hérlendis og erlendis. Hann er efstur á heimslista (World Ranking) FEIF (Alþjóðasamtök íslenska hestsins) í tölti. FEIF World Ranking er byggður upp á þremur hæstu einkunnum eða tímum á hverju WR móti síðustu tveggja ára eða 730 daga. Niðurstöður eru gildar á þessu 730 daga tímabili og er tekið meðaltal hæstu þriggja einkunna.

Íþróttamaður Þjóts: Emma Rakel Björnsdóttir

Emma Rakel er fædd árið 1979 og er fædd og uppalin Skagamaður. Emma æfir boccia og sund með íþróttafélagi Þjóts og hefur verið virkur iðkandi frá stofnun Þjóts.

Emma hefur staðið sig mjög vel á árinu. Emma keppti á þremur mótum í boccia árið 2019. Eitt af því var Íslandsmót ÍF í boccia (einstaklingskeppni) þar sem Emma lenti í 3. sæti í 2. deild.

Emma hefur stundað íþróttirnar af kappi og sýnt framfarir á árinu. Emma er góður liðsmaður og er iðin við að aðstoða aðra.

Við óskum Emmu Rakel til hamingju með árangurinn.

Helstu afrek Emmu Rakelar á árinu:

  • Þriðja sætið í 2.deild – Íslandsmóti ÍF í boccia einstaklingskeppni.

Opnað hefur verið fyrir kosningu HÉR í þjónustugátt Akraneskaupstaðar og er kosningin opin frá 20. til og með 29 desember. 


Karatemaður ársins: Kristrún Bára Guðjónsdóttir

Kristrún Bára náði þeim merka áfanga á árinu að vinna sér inn svart belti eða 1. Dan í karateíþróttinni. Kristrún keppir í Kata sem er hennar keppnisgrein innan karate og þar er hún í sterkum hópi karatekvenna á Íslandi.

Hún keppti á RIG 2019 í Kata með góðum árangri. Hún varð í öðru sæti í Grand Prix mótaröðinni í flokki 16-17 ára. Þá varð hún í 3. sæti á Íslandsmótinu í Kata í flokki 16-17 ára.

Kristrún er í unglingalandsliði Íslands og árið 2019 keppti hún með landsliðshópnum á Svenska Katapokalen einnig tók hún þátt í Smáþjóðamótinu í karate.

Á báðum mótunum stóð hún sig vel.

Kristrún Bára er orðin aðstoðarþjálfari hjá Karatefélaginu og er góð fyrirmynd fyrir iðkendur félagsins.

Helstu afrek Kristrúnar Báru á Íslandi á árinu:

  • Þriðja sæti í Kata í flokki 16-17 ára á Íslandsmótinu.
  • Annað sæti í Kata í flokki 16 – 17 ára á Grand Prix mótaröðinni.

Helstu afrek Kristrúnar Báru erlendis á árinu:

  • Keppti með unglingalandsliði Íslands árið 2019 á Svenska Katapokalen í Stokkhólmi.

Hvernig stendur Kristrún Bára á landsvísu?

  • Kristrún Bára er meðal þriðju bestu Kata keppenda í aldurshópnum 16-17 ára á Íslandi.

Opnað hefur verið fyrir kosningu HÉR í þjónustugátt Akraneskaupstaðar og er kosningin opin frá 20. til og með 29 desember. 


Keilumaður ársins: Jóhann Ársæll Atlason

Jóhann Ársæll Atlason er keilumaður ársins á Akranesi 2019. Hann er fæddur árið 2001. Jóhann Ársæll æfir og leikur með Keilufélagi ÍA.

Árið hefur verðið gott hjá Jóhanni, hann varð Íslandsmeistari unglinga í opnum flokki.

Hann hefur spilað á þremur alþjóðlegum mótum með ungmennalandsliði Íslands og var valinn í afrekshóp karla í keilu. Jóhann hefur verið að gera góða hluti með liði sínu í fyrstu deild karla þar sem þeir eru að berjast um efstu sætin.

Helstu afrek Jóhanns innanlands á árinu:

  • Spilaði á Norðurlandamóti ungmenna U23 í Keiluhöllinni Egilshöll.
  • Var í öðru sæti í Bikarkeppni liða með liði sínu ÍA.

Helstu afrek Jóhanns erlendis á árinu:

  • Spilaði með Ungmennalandsliðinu á boðsmóti í Doha í Qatar.
  • Spilaði á Evrópumóti ungmenna U18 í Vín í Austurríki.

Hvernig stendur Jóhann á landsvísu?

  • Jóhann var í ungmennalandsliðinnu og er í afrekshópi karla í keilu, hann tók þátt í þremur alþjóðlegum mótum á árinu.

Opnað hefur verið fyrir kosningu HÉR í þjónustugátt Akraneskaupstaðar og er kosningin opin frá 20. til og með 29 desember. 


Klifrari ársins: Sylvía Þórðardóttir

Sylvía er fædd árið 2006. Hún æfir og keppir með Klifurfélagi ÍA. Árið 2019 var afar gott klifurár hjá Sylvíu og landaði hún þremur silfurverðlaunum fyrir ÍA í sínum aldursflokki.

Sylvía átti einnig mjög gott útiklifurtímabil þar sem hún klifraði margar erfiðar klifurleiðir og sýndi þar með styrkleika sinn sem alhliða klifrari. Á Íslandsmeistarmótinu í grjótglímu hafnaði hún í öðru sæti eftir harðan bráðabana.

Sylvía tryggði sér einnig silfurverðlaun á Bikarmeistarmótinu í grjótglímu. Í sumar varð Sylvía yngst klifrara til að klára leiðina ?Janus? á Hnappavöllum, en sú leið þykir mikil manndómsvígsla og mikið afrek að klifra hana tólf ára gömul. Sylvía er samviskusöm, drífandi og jákvæð og æfir af krafti. Hún er vel liðin af æfingafélögum og er flott fyrirmynd fyrir yngri klifrara félagsins.

Helstu afrek Sylvíu á Íslandi á árinu:

  • Silfurverðlaun á Íslandsmeistarmótaröðinni í grjótglímu.
  • Silfurverðlaun á Bikarmeistarmótinu í gjótglímu.
  • Silfurverðlaun á Íslandsmeistarmótinu í línuklifri.

Hvernig stendur Sylvía á landsvísu?

  • Sylvía er ein sú sterkasta í sínum aldursflokki og hefur sýnt það með flottum árangri í keppnum ársins. Sylvía hlaut tvenn gullverðlaun, ein silfurverðlaun og ein bronsverðlaun á Íslandsmeistaramótaröðinni í grjótglímu í flokki 12-13 ára og hafnaði í 1.-2. sæti að mótaröð lokinni. Hún var hársbreidd frá því að tryggja sér sjálfan Íslandsmeistaratitilinn, bæði í grjótglímu og í línuklifri. Eftir harðan bráðabana við ríkjandi Íslandsmeistara landaði hún flottum silfurverðlaunum fyrir ÍA.

Opnað hefur verið fyrir kosningu HÉR í þjónustugátt Akraneskaupstaðar og er kosningin opin frá 20. til og með 29 desember. 


Knattspyrnukona ársins: Fríða Halldórsdóttir

Fríða er fædd árið 2000 og hefur verið einn af burðarásum liðsins undanfarin ár þrátt fyrir ungan aldur.

Þrátt fyrir ungan aldur þá hefur hún leikið 64 leiki í meistaraflokki og skorað í þeim 4 mörk.

Hún er mikil keppnismaður og hefur mikinn metnað sem smitar út í leikmannahópinn.

Fríða er mjög sterk í sinni stöðu og mun verða lykilleikmaður á næstu árum hjá félaginu.

Helstu afrek Fríðu á árinu:

  • Fríða var lykilmaður í mfl. kvenna á árinu.
  • Hún lék 18 leiki í Inkassodeildinni og skoraði í þeim 2 mörk.
  • Einnig lék hún 3 leiki í Mjólkurbikarkeppninni og skoraði 1 mark.
  • Var lykilleikmaður í mjög svo ungu liði Skagamanna og hennar styrkur hafði mikið að segja í baráttu liðsins um að halda sæti sínu í deildinni í lokin.

Hvernig stendur Fríða á landsvísu?

  • Fríða hefur leikið 3 U-19 landsleiki og 5 U-16 landsleiki.

Knattspyrnumaður ársins: Óttar Bjarni Guðmundsson

Óttar Bjarni er fæddur árið 1990. Hann gekk til liðs við Skagamenn fyrir tímabilið 2019.

Ómar hefur mjög mikla leikreynslu, hann hefur leikið 223 leiki í meistaraflokki og skorað í þeim 14 mörk. Hann er mikill leiðtogi, innan vallar sem utan og stór karakter.

Óttar er mjög góður leikmaður og smitar út frá sér með sinni leiðtogahæfni og keppnisskapi.

Helstu afrek Óttars Bjarna á árinu:

  • Óttar Bjarni var einn besti leikmaður Skagamanna í Pepsi Max deildinni í ár.
  • Hann lék 20 leiki í Pepsi Max deildinni og skoraði í þeim 2 mörk.
  • Hann lék einnig 2 leiki í Mjólkurbikarkeppninni og skoraði í þeim 1 mark.

Hvernig stendur Óttar Bjarni á landsvísu?

  • Óttar Bjarni er mjög leikreyndur leikmaður og hefur leikið 223 leiki í meistaraflokki og skorað í þeim 14 mörk.

Opnað hefur verið fyrir kosningu HÉR í þjónustugátt Akraneskaupstaðar og er kosningin opin frá 20. til og með 29 desember. 


Knattspyrnumaður Kára: Andri Júlíusson

Andri Júlíusson er fæddur árið 1985. Hann er einn af allra reynslumestu leikmönnum Kára. Hann hefur spilað og skorað í öllum fjórum efstu deildunum á Íslandi og að auki spilaði hann í nokkur ár í Noregi.

Andri er gríðarlega mikill keppnismaður og fer í öll verkefni af fullum krafti og metnaði. Hann hefur haft mikil og góð áhrif á ungan og efnilegan hóp Káramanna, en eldmóður hans er mjög drífandi og hvetjandi hvort sem það er á æfingum eða í leikjum.

Andri Júlíusson er mikill markaskorari. Í sumar spilaði hann 20 leiki í 2. deild og skoraði í þeim 15 mörk, sem skilaði honum silfri í markaskorun í 2. deild.

Andri var valinn leikmaður ársins 2019 af þjálfara og leikmönnum Kára og ÍA-TV leikmaður ársins hjá Kára.

Helstu afrek Andra á árinu:

  • Spilaði 20 leiki í deild og skoraði 15 mörk.
  • Næst markahæsti leikmaður 2. deildar 2019.

Körfuknattleiksmaður ársins: Chaz Malik Franklin

Körfuknattleiksmaður ársins er Chaz Malik Franklin. Chaz er reyndur kappi fæddur 1981. Hann kom til ÍA sem leikmaður og þjálfari fyrir leiktíðina 2018/2019.

Hann lét strax mikið til sín taka innan sem utan vallar, enda mjög líflegur karakter og einstakur leiðtogi. Chaz leiddi lið ÍA til úrslita í 2. deild þar sem liðið hafnaði í öðru sæti. Hann stýrði liðinu af mikilli röggsemi og var stigahæsti leikmaður liðsins með rúmlega 30 stig að meðaltali.

Chaz var einnig þjálfari í unglingaflokkum körfuknattleiksfélagsins sem náðu frábærum árangri.

Chaz Franklin er mjög góður körfuboltamaður og frábær þjálfari sem nær einstaklega vel til þeirra iðkenda sem hann er að þjálfa. Hann er vel að því kominn að vera körfuknattleiksmaður ársins 2019 hjá ÍA.

Helstu afrek Chaz á árinu:

  • Chaz leiddi lið ÍA sem leikmaður og þjálfari til úrslita í 2.deild karla leiktíðina 2018/2019.
  • Þjálfari 9. flokks sem komst í undanúrslit i bikarkeppninni.
  • Þjálfari 8. flokks sem endaði sitt tímabil í A-riðli.
  • Í keppnisferð til Spánar kom liðið heim með bikar.
  • Nokkrir leikmanna sem hann þjálfar taka þátt í unglingalandsliðsæfingum og verkefnum.

Hvernig stendur Chaz á landsvísu?

  • Chaz er einn af bestu leikmönnum 2. deildar í körfubolta.

Opnað hefur verið fyrir kosningu HÉR í þjónustugátt Akraneskaupstaðar og er kosningin opin frá 20. til og með 29 desember. 


Kraftlyftingamaður ársins: Alexander Örn Kárason

Alexander er fæddur árið 1998. Hann æfir kraftlyftingar hjá Kraftlyftingafélagi Akraness. Þetta er fyrsta árið hans í kraftlyftingum og má með sanni segja að hann hafi tekið það með trompi. Eftir árið er hann í 4. sæti í karlaflokki á stigum á styrkleikalista Kraftlyftingasambandsins sem verður að teljast frábær árangur fyrir þennan unga og efnilega nýliða.

Á árinu setti Alexander 10 Íslandsmet í unglinga- og opnum flokki og standa sex af þeim ennþá í dag. Hann tryggði sér rétt til þátttöku á HM og EM unglinga á næsta ári og hefur verið valinn í landslið Íslands fyrir árið 2020.

Alexander er góður félagi og frábær fyrirmynd fyrir unga og efnilega kraftlyftingamenn og konur og þykir nokkuð ljóst að hann mun fara alla leið.

Helstu afrek Alexanders á árinu:

  • Íslandsmeistari unglinga í klassískum kraftlyftingum í -93 kg flokki.
  • Íslandsmeistari unglinga í klassískum kraftlyftingum óháð þyngdarflokki.
  • Íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum í -93 kg flokki.
  • Íslandsmeistari í réttstöðulyftu í -93kg flokki.

Hvernig stendur Alexander á landsvísu?

  • Alexander er í 4. sæti á lista Kraftlyftingasambandsins í karlaflokki óháð aldri og þyngd.

Kylfingur ársins: Valdís Þóra Jónsdóttir

Valdís Þóra er fædd árið 1989 og spilar golf með Golfklúbbnum Leyni. Valdísi Þóru þarf ekki að kynna fyrir Skagamönnum, Íslandsmeistari í golfi, margfaldur klúbbmeistari Golfklúbbsins Leynis og einn fremsti kylfingur meðal kvenna til margra ára og atvinnumaður í golfi.

Valdís Þóra var valin kvenkylfingur ársins af Golfsambandi Íslands (GSÍ) árið 2019 og er það í þriðja sinn sem hún hlýtur þá viðurkenningu.

Valdís Þóra hefur allt frá unglingsaldri verið með skýr markmið sem hún hefur unnið markvisst að hvort sem er með æfingar í huga, Íslandsmeistaratitla, þátttöku í landsliðsverkefnum og nú sem atvinnumaður í golfi. Valdís Þóra er góð fyrirmynd fyrir alla kylfinga og íþróttafólk og hefur ávallt verið til fyrirmyndar innan sem utan vallar.

Helstu afrek Valdísar Þóru á Íslandi á árinu:

  • Valdís Þóra keppti lítið á Íslandi þetta árið sökum anna við keppni erlendis.

Helstu afrek Valdísar Þóru erlendis á árinu:

  • Valdís Þóra spilaði erlendis keppnistímabilið 2019 á LET mótaröðinni sem er sterkasta mótaröð kvenna í Evrópu og einnig LET Access mótaröðinni sem er önnur sterkasta mótaröð kvenna í Evrópu.
  • Tryggði sér takmarkaðan keppnisrétt á LET mótaröðinni fyrir keppnistímabilið 2020.
  • Tók þátt í úrtökumótum fyrir LPGA mótaröðina sem talin er sterkasta kvennamótaröðin. Því miður náði Valdís ekki að tryggja sér keppnisrétt fyrir tímablið 2020.

Hvernig stendur Valdís Þóra á landsvísu?

  • Valdís Þóra var valin kvenkylfingur ársins af Golfsambandi Íslands (GSÍ) og var það í þriðja sinn sem hún hlýtur þá viðurkenningu.
  • Valdís Þóra keppir sem atvinnumaður í golfíþróttinni og hefur um langt skeið verið einn besti kvenkylfingurinn sem Ísland á. Hún er margfaldur Íslandsmeistari í flokki unglinga og fullorðinna og er klúbbnum sínum til sóma.

Opnað hefur verið fyrir kosningu HÉR í þjónustugátt Akraneskaupstaðar og er kosningin opin frá 20. til og með 29 desember. 


Skotmaður ársins: Stefán Gísli Örlygsson

Stefán Gísli er fæddur árið 1974. Hann æfir með Skotfélagi Akraness og er í landsliði Íslands í haglabyssuskotfimi. Stefán var í toppbaráttunni á öllum skotmótum á Íslandi síðastliðið sumar. Hann vann 2 af þeim landsmótum sem hann keppti á og varð í 2. sæti á Íslandsmeistaramótinu eftir bráðabana. Þá skaut Stefán í þrígang í sumar skor yfir Ólympíulágmarkinu (MQS). Stefán keppti á fjórum mótum erlendis á árinu: Evrópumeistaramótinu á Ítalíu, Heimsbikarmótum í Mexíkó, Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum og Finnlandi. Stefán hefur mikinn metnað fyrir því að ná langt í íþróttinni og er mikill keppnismaður. Hann er góður liðsmaður og viljugur að miðla af sinni þekkingu.

Helstu afrek Stefáns á Íslandi á árinu:

  • Stefán varð í 1. sæti á tveimur landsmótum.
  • Varð í 2. sæti á Íslandsmeistaramótinu eftir bráðabana.
  • Náði í þrígang í sumar skori yfir Ólympíulágmarkinu (MQS).

Helstu afrek Stefáns erlendis á árinu:

  • Keppti með landsliði Íslands á 4 mótum erlendis á árinu.
  • Keppti á Heimsbikarmóti í Mexíkó.
  • Keppti á Heimsbikarmóti í Sameinuðu Arabísku furstadæmunum.
  • Keppti á Heimsbikarmóti í Finnlandi.
  • Keppti á Evrópumeistaramóti á Ítalíu.

Hvernig stendur Stefán á landsvísu?

  • Er í landsliði Íslands í haglabyssuskotfimi (Skeet). Stefán hefur verið undanfarin ár sem og liðið ár í toppbaráttunni í þeim mótum sem hann hefur verið að keppa í.

Opnað hefur verið fyrir kosningu HÉR í þjónustugátt Akraneskaupstaðar og er kosningin opin frá 20. til og með 29 desember. 


Sundmaður ársins: Brynhildur Traustadóttir

Brynhildur Traustadóttir er fædd árið 2001. Brynhildur sýndi á árinu að hún er ein fremsta skriðsundskona landsins. Brynhildur var í landsliðshópi Íslands á Norðurlandameistaramótinu í Færeyjum þar sem hún varð fjórða í 800m skriðsundi og sjöunda í 200m og 400m skriðsundi.

Brynhildur náði þriðja sæti í 1500m skriðsundi á Prag International Meet i Tékklandi þar sem hún keppti með landsliði Íslands. Innanlands bar hæst fjögur silfur á Íslandsmeistaramótinu í 25m laug og þrjú brons á Íslandsmeistaramótinu í 50m laug.

Brynhildur átti hraðasta sundið á Bikarmeistaramótinu í 400m og 800m skriðsundi ásamt því að bæta Akranesmet í 1500m skriðsundi í fullorðinsflokki í 50m laug. Sundfélag Akraness er stolt af því að hafa Brynhildi innan sinna vébanda þar sem hún er mikil fyrirmynd og frábær félagi.

Helstu afrek Brynhildar á Íslandi á árinu:

  • Fjögur silfurverðlaun á IM25 í 200, 400, 800 og 1500m skriðsundi.
  • Þrenn bronsverðlaun á IM50 í 200, 400 og 1500m skriðsundi.
  • Akranesmeistari í fullorðinsflokki.
  • Sundmaður Akraness 2019 með flest FINA stig.
  • Akranesmet i 1500m skriðsundi i 50m laug i fullorðinsflokki.
  • Hraðasta sund í 400m skriðsundi og 800m skriðsundi á Bikarmeistaramótinu i september.

Helstu afrek Brynhildar erlendis á árinu:

4. sæti í 800m skriðsundi á Norðurlandameistaramótinu í Þórshöfn í Færeyjum í desember.
7. sæti í 200m og 400m skriðsundi á Norðurlandameistaramótinu í Þórshöfn í Færeyjum í desember.
3. sæti í 1500m skriðsundi á Prag International Meet i Tékklandi.

Hvernig stendur Brynhildur á landsvísu?

  • Brynhildur er ein af bestu sundmönnum á Íslandi i 200, 400, 800 og 1500m skriðsundi. Og meðal þeirra bestu i 50 og 100m skriðsundi ásamt 50m flugsundi.

Opnað hefur verið fyrir kosningu HÉR í þjónustugátt Akraneskaupstaðar og er kosningin opin frá 20. til og með 29 desember.