Fyrsta barn ársins er eitt stærsta barnið sem fæðst hefur á Íslandi


Emil Rafn Stefánsson, fyrsta barnið sem fæddist á Íslandi árið 2020, er eins og áður hefur komið fram á skagafrettir.is með sterka Skagatengingu.

Faðir Emils Rafns, Stefán Halldór Jónsson, er fæddur á Akranesi árið 1986, en móðir Emils Rafns er Berglind Bjarnadóttir.

Emil Rafn er eitt stærsta barn sem fæðst hefur á Íslandi á unanförnum áratugum. Þetta kemur fram í frétt á RÚV sem birt var í gær.

Emil Rafn er þriðja barn þeirra Berglindar og Stefáns Halldórs. Emil Rafn var 24 merkur eða tæplega 6 kíló þegar hann fæddist.

Meðalþyngd íslenskra barna hefur verið í kringum 3,6 kg., tæpar 15 merkur, og meðallengd um 50 sentímetrar.

Eitt til tvö börn á ári mælast 22 merkur við fæðingu, en sjaldgæft er að börn séu stærri en það.

Samkvæmt upplýsingum frá fæðingarskráningu Landspítalans hefur eitt barn fæðst á síðustu fimm árum sem var nokkurn veginn jafn stórt og Emil, en á síðustu 30 árum hafa fæðst tvö börn sem voru örlítið stærri.

„Þetta er kraftaverkakona. Þetta ferli er alltaf kraftaverk en hún er hérna uppi, eða eins langt og maður kemst bara,“ segir Stefán Halldór Jónsson, faðir Emils í viðtali við RÚV.

Umfjöllin RÚV má sjá í heild sinni hér:

Foreldrar Stefán Halldórs eru þau Jón Árnason og Sigurveig Stefánsdóttir sem hafa á undanförnum árum byggt upp hrossræktarbúið Skipaskaga við sveitabæinn Litlu-Fellsöxl í Hvalfjarðarsveit.

http://localhost:8888/skagafrettir/2020/01/02/fyrsta-barn-arsins-2020-er-med-sterka-skagatengingu/