Leifi á heimleið – „Hefur sett ný viðmið í sundíþróttinni í Danmörku“


Skagamaðurinn Eyleifur Ísak Jóhannesson hefur á undanförnum árum skipað sér í fremstu röð á heimsvísu sem sundþjálfari.

„Leifi“ hefur á undanförnum 13 árum þjálfað sundfólk í fremstu röð á heimsvísu hjá danska stórklúbbnum Aalborg Svømmeklub.

Í byrjun ársins 2020 gaf Leifi það út að hann hefði sagt starfi sínu lausu og ætlar hann að flytja heim til Íslands ásamt fjölskyldunni.

Á meðal þeirra sem Leifi hefur komið í fremstu röð eru Ø. Nielsen, Viktor B. Bromer og Katrine Bukh Villesen.

John Larsen formaður Aalborg Svømmeklub segir í tilkynningu félagsins að það verði mikil eftirsjá af Leifa – en klúbburinn hafi skilning á því að Skagamaðurinn ætli að flytja heim af fjölskylduástæðum.

„Leifi“ hefur átt stóran þátt í því að lyfta ránni hærra í sundíþróttinni hér í Álaborg og á landsvísu hér í Danmörku. Sundið hefur náð nýjum hæðum á þessum tíma. Frábær árangur á lands – og heimsvísu sundfólksins okkar segir alla söguna. Og árangurinn hefur vakið athygli og Leifi á stóran þátt í því,“ segir Larsen m.a.


„Þetta var erfið ákvörðun en okkur fannst þetta vera rétti tímapunkturinn að flytja heim og prófa eitthvað nýtt. Ég flutti til Álaborgar með fjölskyldunni árið 2007 til þess að fá nýjar áskoranir og bæta mig sem þjálfari. Á þeim tíma vorum við með 5 ára áætlun að flytja heim árið 2012. Það breyttist fljótlega þar sem okkur leið mjög vel í Álaborg, hjá klúbbnum og hjá því fólki sem stóð okkur næst hér í Danmörku. Við bættum því 8 árum við okkur. Ástæðan fyrir því að við flytjum heim er sú að við viljum gefa börnunum okkar tækifæri til þess að alast upp á Íslandi, kynnast fjölskyldunni heima á Íslandi betur. Að mínu mati er þetta líka besti tíminn fyrir Aalborg Svømmeklub til þess að fá nýjan einstakling í starf yfirþjálfara. Ég ákvað að láta vita af þessu með góðum fyrirvara þannig að klúbburinn geti hafið leitina að nýjum yfirþjálfara nú þegar,“ segir Eyleifur í fréttatilkynningu frá félaginu.

Ættartréð:

Eyleifur Ísak er fæddur árið 1971 á Akranesi. Foreldrar hans eru Jóhannes Eyleifsson og Drífa Garðarsdóttir. Systkini Leifa eru þau Garðar, Linda og Lovísa.