Körfuknattleiksdeild ÍA sektuð vegna hegðunar stuðningsmanns


Stuðningsmenn eru mikilvægur hluti af öllu íþróttastarfi en það er mikilvægt að þeir kunni að haga sér vel á áhorfendapöllunum.

Körfuknattleiksdeild ÍA þarf að taka á sig nokkuð mikið fjárhagslegt „högg“ vegna ótrúlegrar hegðunar stuðningsmanns ÍA í bikarleik ÍA og Njarðvíkur í 10. flokki karla á í Jaðarsbökkum þann 15. janúar s.l.

Félagið þarf að greiða 50.000 kr. í sekt.

Í úrskurði aganefndar Körfuknattleikssambands Íslands kemur fram að áhorfandinn hafi látið öllum illum látum.

Úrskurðinn má lesa í heild sinni hér:

Áhorfandinn truflaði leikmann Njarðvíkur undir lok leiksins þegar hann var að taka vítaskot. Truflunin var með þeim hætti að dómarar leiksins létu leikmanninn endurtaka vítið. Eftir leikinn átti sér stað alvarlegt atvik. Ungi áhorfandinn sem var valdur af fyrra atvikinu tók sig til og hljóp að varamannabekk Njarðvíkur sem voru að fagna sigri og hrinti einum leikmanni liðsins sem stóð upp á stól og var sá heppinn að slasa sig ekki. Eftir það hélt viðkomandi áfram að ýta við leikmönnum og þjálfara Njarðvíkur þangað til hann var dreginn burtu af formanni ÍA.


Í skýrslu aganefndar kemur fram að Körfuknattleiksfélag ÍA harmar að atvikið hafi átt sér stað. Félagið hrósar dómurum, leikmönnum, þjálfurum og foreldrum Njarðvíkurliðsins hvernig þau meðhöndluðu þessar erfiðu aðstæður sem komu upp í lok leiksins. Einng er tekið fram að sá sem varð valdur að þessu atviki varð strax mjög miður sín eftir að hann áttaði sig á hvað hann hafði gert. Hann ásamt föður sínum höfðu samband við formann KKÍ strax um kvöldið þar sem þeir báðust innilegrar afsökunar á þessu og reyndu einnig að koma þeim skilaboðum áleiðis til leikmanna Njarðvíkur. Tekið var fram að morguninn eftir var fundað með þeim sem var valdur af þessu atviki ásamt leikmönnum sem tóku þátt í leiknum sem og mörgum af þeim sem voru stuðningsmenn ÍA á þessum leik, þar sem farið var vel yfir atvik máls og eftirmáli.