Halldór Bjarki hlaut Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands


Skagamaðurinn Halldór Bjarki Ólafsson var heiðraður af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni á dögunum. Halldór Bjarki er í læknisfræðinámi og hlaut hann Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands. Þetta er í 25. skipti sem þessi verðlaun eru afhent af forseta Íslands á Bessastöðum.

Halldór Bjarki hefur unnið að byltingarkenndri uppgötvun um tengsl rauðra blóðkorna og dánartíðni eftir skurðaðgerðir

Halldór Bjarki segir í viðtali við RÚV að verkefnið geti bjargað mannslífum.

Eins og áður segir er Halldór Bjarki læknanemi við Háskóla Íslands. Hann hefur þróaði verkefni þar sem tengsl á milli breytileika í stærð rauðra blóðkorna og dánartíðni eftir skurðaðgerðir eru könnuð. Niðurstaðan er sú að aukinn breytileiki eykur hættu á að sjúklingar deyi eftir aðgerðir.

Í viðtali á RÚV var Halldór Bjarki spurður að því hvernig uppgötvunin geti gagnast læknum fyrir skurðaðgerðir.

„Þá myndi þetta breyta því hvernig við vinnum upp sjúklinga fyrir skurðaðgerðir, með það að markmiði að sjúklingunum farnist betur. Og ávinningurinn yrði gífurlegur, bæði fyrir sjúklingana og einnig fyrir heilbrigðiskerfið í sambandi við tilkostnað sem annars yrði eytt í fylgikvilla og vandamál eftir aðgerðir,“ segir Halldór Bjarki.

Er þetta hugmynd sem þú hefur eða getur fengið einkaleyfi á?

„Það er góð spurning. Við myndum vilja rannsaka þetta nánar og jafnvel fara í tilraunir þar sem reynt væri að laga þennan breytileika. En það verður bara að koma í ljós.“

Þannig að það verður líka að koma í ljós hvort hægt sé að markaðssetja þessa hugmynd og selja hana?

„Já en gögnin tala sínu máli. Þarna er aukin dánartíðni og fylgikvillar ef einstaklingar eru með þetta. Þannig að í raun og veru þurfum við bara að komast að því hvernig við viljum laga þetta og sjá þetta breytast, og laga horfur þessara sjúklinga.“

Er þetta eitthvað sem menn geta farið að nota í heilbrigðiskerfinu strax?

„Já með þessum uppgötvunum mættu heilbrigðisstarfsmenn, og sérstaklega læknar, vera meira vakandi fyrir þessu. En þetta er eitthvað sem við þurfum að kortleggja betur til þess að koma þessu í praktík.“

Getur þetta bjargað mannslífum?

„Gögnin tala sínu máli. Ef einstaklingar eru ekki með þennan breytileika, og fara í skurðaðgerðir, þá eru minni líkur á að þeir deyi eftir skurðaðgerðir eða fái fylgikvilla,“ segir Halldór Bjarki.

Halldór Bjarki er fæddur árið 1993 og stundaði hann nám í Grundaskóla. Foreldrar hans eru þau Guðný Ólafsdóttir Tedd og Ólafur Hauksson sem eru búsett á Akranesi.