Húsnæðisáætlun Akraneskaupstaðar til næstu sjö ára samþykkt


Húsnæðisáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árin 2020-2026 var samþykkt á síðasta fundi bæjarstjórnar Akraness.

Um er að ræða heildstæða áætlun sveitarfélagsins varðandi stöðu húsnæðismála í sveitarfélaginu.

„Hér viljum við sjá atvinnulífið vaxa og að íbúar hafi aukin tækifæri til atvinnuþátttöku í bæjarfélaginu. Akranes er góður staður fyrir fyrirtæki, hagstætt lóðaverð og fasteignagjöld eru lág. Þá eru innviðir samfélagsins sterkir, bæði fyrir fjölskyldur og fyrirtæki. Lífið á Akranesi er hreinlega einfaldara og betra í alla staði„ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri um nýsamþykkta húsnæðisáætlun.

Meginmarkmið áætlunarinnar að meta húsnæðisþörf á næstu fjórum til átta árum á Akranesi og hvernig bregðast eigi við og stuðla að auknu húsnæðisöryggi íbúa innan sveitarfélagsins.

Húsnæðisáætlunin hefur að geyma verðmætar upplýsingar fyrir samfélagið Akraness. Þar má lesa um stöðu húsnæðismála í sveitarfélaginu, nálgast upplýsingar um íbúaþróun og unnar nokkrar sviðsmyndir um íbúaaukningu næstu ára.

Mikil þörf er á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu svo hægt sé að halda í við aukinn fjölda þeirra sem kjósa að búa á Akranesi en starfar í Reykjavík.

Jafnframt eru unnið að ýmsum atvinnuþróunarverkefnum sem vonir standa til að efla atvinnulíf á Akranesi og á Grundartanga.

Á næstu níu árum er gert ráð fyrir að þörf verði fyrir 588 íbúðir á Akranesi til viðbótar við það sem nú er eða að meðaltali 65 nýjar íbúðir á ári.

Nokkur óvissa er þó um íbúðaþörfina og getur áætluð aukning á fjölda íbúa um 2% auðveldlega orðið minni eða meiri eftir hagvexti í samfélaginu, árangri af markaðssetningu Akraness, þróun atvinnuuppbyggingar, mögulegri sameiningu sveitarfélaga sem og hvernig úrbætur í samgöngumálum gagnvart höfuðborgarsvæðinu munu ganga eftir á næstu árum, s.s. 2+1 vegur Vesturlandsvegar um Kjalarnes, Sundabraut eða tvöföldun Hvalfjarðarganga.

Brotthvarf leigufélagsins Heimavalla frá Akranesi af leigumarkaði kallar á sérstakt inngrip svo virkum leigumarkaði verði komið á að nýju á Akranesi.

Smelltu á myndina hér fyrir neðan fyrir nánari upplýsingar.