Orðsending til íbúa Hvalfjarðarsveitar



Eftirfarandi tilkynning er frá sveitastjóra Hvalfjarðarsveitar.

Kæru íbúar Hvalfjarðarsveitar.


Fyrsti dagur samkomubanns á Íslandi er runninn upp.  Það eru öðruvísi tímar sem nú ganga í garð og vandasamt verkefni framundan hjá okkur sem þjóð, verkefni sem við öll þurfum að sýna virðingu, þolinmæði og tillitsemi. 

Í Hvalfjarðarsveit hefur verið virkjuð Viðbragðsáætlunsjá hér, sem stofnanir sveitarfélagsins vinna eftir en meginreglan er að fylgja öllum tilmælum stjórnvalda. 

Þjónusta Hvalfjarðarsveitar og stofnana hennar gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu og því hafa skýrar reglur verði settar um hvernig lágmarka megi líkur á smitum tengdum tengdum starfsemi sveitarfélagsins. 

Mikilvægt er að halda daglegri starfsemi áfram með sem minnstri röskun en samhliða hefur sveitarfélagið gert ráðstafanir til framtíðar um viðbrögð vegna skertrar starfsemi. 

Í dag er starfsdagur leik- og grunnskóla til þess að stjórnendur og starfsfólk geti skipulagt skólastarfið eins vel og framast er unnt með hagsmuni nemenda að leiðarljósi en skólarnir munu vinna í einu og öllu eftir tilmælum stjórnvalda í þeim efnum.

Í öllum stofnunum sveitarfélagsins hafa áherslur í sóttvörnum og þrifum verið endurskoðaðar og mikil áhersla lögð á hreinlæti, handþvott og sprittun, bæði fyrir starfsfólk og þjónustuþega.  Áhersla hefur verið lögð á að öllum fundum sem ekki þarf nauðsynlega að halda eða taka þátt í sé sleppt og að fjarfundir séu alltaf fyrsti kostur.  Við hvetjum þá sem erindi eiga að nýta síma og/eða tölvupóst og draga þannig úr heimsóknum eins og kostur er.

Á heimasíðu Hvalfjarðarsveitar hefur verið settur inn flýtihnappurinn COVID-19 sem leiðir beint inn á upplýsingasíðu vegna COVID-19 og hvetjum við íbúa til þess að kynna sér hana.

Hvalfjarðarsveit mun miðla öllum frekari upplýsingum og leiðbeiningum varðandi starfsemi sveitarfélagsins áfram hér á heimasíðunni og eru íbúar hvattir til að fylgjast vel með.

Gangi okkur öllum vel !

Sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar