„Drögum bara andann djúpt og sjáum hvað setur“


Steinunn Inga Óttarsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi skrifaði eftirfarandi pistil til nemenda FVA sem birtur er á vef skólans.

Skólastarfið í FVA er með óhefðbundnum hætti vegna samkomubanns í kjölfar Covid-19 faraldursins.

Steinunn segir m.a. að það sé hægt að horfa á björtu hiðarnar, og þar á meðal gæti það verið kostur að fá kennsluna heim og vera á náttbuxunum við tölvuna í kennslustund.


Kennarar FVA halda uppi námi og kennslu í skólanum í yfirstandandi samkomubanni og hafa lagt heimili sín undir vinnustöðvar, eins og fleiri sem vinna heima þessa dagana.

Nemendur skólans eru flestir fljótir að aðlagast breyttum aðstæðum og nýju námsumhverfi. Þeim er ráðlagt að sinna verkefnum sínum af yfirvegun, reyna að halda rútínu, borða hollt og fara út að ganga til að daglegt líf raskist sem minnst.

Eina sem er öruggt núna er að þetta undarlega ástand mun líða hjá og því er eina ráðið að gera það besta úr því og nýta tímann vel.

Það er alveg hægt að horfa á björtu hiðarnar, njóta þess að fá kennsluna heim og geta verið í náttbuxunum við tölvuna, finna hvernig hægist á heiminum, tillitssemi í garð annarra eykst og umhyggja fyrir öldruðum og veikum vex. Við erum vel sett hér á landi að svo mörgu leyti þrátt fyrir allt.

Enn vitum við hér í FVA ekkert annað en að samkomubannið gildir og skólinn okkar er lokaður, fram að páskum og kannski lengur. Að sinna námi og kennslu við þessar aðstæður er sannarlega áskorun fyrir alla. Og ekki er síður áskorun að halda sig sem mest heima við, forðast umgengni við annað fólk eins og hægt er og hvorki takast í hendur né faðmast. Að gera slíkt sjálfviljug/ur er mikilvægt og þakkarvert því það hjálpar til við að draga úr smitleiðum og þar með útbreiðslu flensunnar.

Það er enn of snemmt að segja nokkuð til um hvaða áhrif skólalokunin hefur í heild á námsframvindu og brautskráningu nemenda okkar. Það kemur allt í ljós síðar, við drögum bara andann djúpt og sjáum hvað setur.

Kæru nemendur og kennarar, nýtið kærkomið helgarfrí til að hvílast og njóta. Á mánudaginn hefst svo lokaspretturinn fyrir páska, hann verður strembinn en við hlustum ekki á úrtölur; við ætlum að klára þetta langhlaup!

Steinunn Inga Óttarsdóttir,
skólameistari FVA