Orgelið í Akraneskirkju fær yfirhalningu – 1800 pípur hreinsaðar af fagmanni


Í vikunni hefst vinna við að hreinsa orgel Akraneskirkju. Orgelið, sem var smíðað af Bruno Christensen & Sønner Orgelbyggeri í Danmörku er orðið 32 ára gamalt og því kominn tími á yfirhalningu.

Sveinn Arnar Sæmundsson organisti Akraneskirkju segir að orgelið verði eins og nýtt þegar verkinu verði lokið.

Sveinn Arnar.

„Það er mælt með að orgel séu hreinsuð á 10-15 ára fresti til að viðhalda hljómgæðum sínum, en aldrei áður hefur farið fram gagnger hreinsun á þessu orgeli, svo það er orðið afar aðkallandi. Björgvin Tómasson orgelsmiður hefur séð um stillingu á hljóðfærinu undanfarin ár og mun hann sjá um þessar framkvæmdir,“ segir Sveinn Arnar en gert er ráð fyrir að verkinu verði lokið eftir um fjórar vikur.

„Í orgelinu eru um 1800 pípur og verður hver og ein tekin úr og hreinsuð og sett síðan á sinn stað. Einnig verður hljóðfærið stillt. Það má því búast við að orgelið verði eins og nýtt þegar verkinu lýkur,“ segir Sveinn Arnar.

Mynd: Helga Sesselja Ásgeirsdóttir