Skátaverkefni fyrir börn fær styrk frá Akraneskaupstað


Þorpið fékk nýverið styrk frá Akraneskaupstað til þess að þróa þróa útilífs- og ævintýranámskeið fyrir 11 – 12 ára börn. Styrkur úr þróunarsjóði skóla- og frístundasviðs verður nýttur í þetta verkefni sem verður unnið í samvinnu við Skátafélag Akraness og Björgunarfélag Akraness.

Styrkir úr þróunarsjóði skóla- og frístundasviðs voru auglýstir til umsóknar og rann umsóknarfresturinn út 15. mars s.l. Aðeins ein umsókn barst og var hún frá Þorpinu í samvinnu við Skátafélag Akraness og Björgunarfélag Akraness.

Foreldrasamstarf og samstarf á milli skólastiga var verkefni sem skóla – og frístundaráð setti í forgang varðandi styrki úr þessum þróunarsjóði. Eins og áður segir barst ekki umsókn tengt því verkefni en í bókun frá fundi ráðsins frá 18. febrúar s.l. kemur fram að þessar áherslur útiloki ekki önnur verkefni.

Markmiðið með útilífs – og ævintýranámskeiðinu verður að gefa börnum á á aldrinum 11-12 ára tækifæri til að kynnast skáta og björgunarstarfi í verki, en lítið hefur verið um tilboð fyrir þennan aldurshóp yfir sumartímann annað en hefðbundið íþróttastarf. Skóla- og frístundaráð samþykkti styrk upp á 550.000 kr. í þetta verkefni.

Skóla- og frístundaráð lagði það til á síðasta fundi sínum að þróunarsjóðurinn verði aftur auglýstur í byrjun hauststarfs og þá með sömu áherslum og áður.