Pétur Magnússon er nýr forstjóri Reykjalundar


„Eftir að hafa notið þeirra forréttinda að starfa með einstaklega frábæru fólki fyrir Hrafnistu og aldraða í 12 ár, í einhverju skemmtilegasta starfi sem til er, hef ég ákveðið að breyta til og fara í spennandi verkefni með Reykjalundi,“ segir Skagamaðurinn Pétur Magnússon á fésbókarsíðu sinni.

Tilkynnt var í dag að Pétur verði nýr forstjóri Reykjalundar en hann hefur gegnt starfi forstjóra Hrafnistu í 12 ár.

Pétur Magnússon.

Reykjalundur er endurhæfingarmiðstöð SÍBS og tekur Pétur við starfi forstjóra frá og með 1. júní næstkomandi. Hann tekur við starfinu af Önnu Stefánsdóttur sem hefur verið starfandi forstjóri stofnunarinnar.

Pétur er lyfjafræðingur og með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík með áherslu á mannauðsstjórnun. Eins og áður segir hefur hann verið forstjóri á Hrafnistuheimilunum síðastliðin 12 ár.

Pétur er fæddur árið 1971. Hann er sonur Svandísar Pétursdóttur og Magnúsar Oddssonar. Magnús lést í apríl árið 2017 en hann var m.a. rafveitustjóri á Akranesi og bæjarstjóri Akraness á árunum 1974-1982.


http://localhost:8888/skagafrettir/2020/03/23/forstjori-hrafnistu-a-batavegi-eftir-erfid-veikindi-starfsfolk-landspitala-a-kaerar-thakkir-skildar/