Spennandi og fjölbreytt sumardagskrá á Smiðjuloftinu


Sumarið 2020 verður án efa eitt það skemmtilegasta frá upphafi á Smiðjuloftinu á Akranesi. Framundan eru áhugaverðir viðburðir af ýmsu tagi þar sem að fólk á öllum aldri ætti að finna eitthvað við sitt hæfi.

Hjónin Valgerður Jónsdóttir og Þórður Sævarsson settu Smiðjuloftið á laggirnar á vormánuðum árið 2018.

Frá þeim tíma hefur afþreyingarsetrið vaxið og dafnað vel. Klifuríþróttin er þar fyrirferðarmikil en það er margt annað í boði á Smiðjuloftinu.

„Fjölskyldutímarnir á sunnudögum hafa verið í fríi í tvo mánuði vegna samkomubannsins, en nú megum við koma þeim í gang aftur og hlökkum við mikið til.

Við ætlum að bjóða upp á Fjölskyldutíma frá Hvítasunnudegi og svo alla sunnudaga í júní. kl. 11-14.

Allt fjörið á sínum stað, klifur, leiktæki, púsl, spil, bækur ofl.

Frá 30. maí og út júní verður líka opið í klifursalinn á laugardögum frá kl. 11-14,“ segir Valgerður.

„Opnunartímar hverrar viku verða auglýstir á síðum Smiðjuloftsins á sunnudögum. Þar förum við eftir veðri og vindum, enda nýta klifrarar góða veðurdaga til útiklifurs. Það er hægt að bóka heimsóknir á Smiðjuloftið fyrir hópa í allt sumar. Gestir okkar fá að klifra, leika sér, syngja saman eða hlusta á lifandi tónlist og jafnvel taka með sér léttar veitingar.

Sumarnámskeið – Tón- og leiklistarblanda

Tónlistin er einnig í stóru hlutverki í dagskrá Smiðjuloftsins að venju.

„Við ætlum að bjóða upp á sumarnámskeið sem kallast Tón- og leikslistarblanda fyrir krakka fædda 2011-2007. Námskeiðið fer fram vikuna 15. – 19. júní,“ bætir Valgerður við en hún fer í næstu viku af stað með gítarnámskeið sem er ætlað fyrir starfsfólk leik- og grunnskóla.

„Þetta námskeið er reyndar opið fyrir alla sem eru 18 ára og eldri og langar að læra einfaldan undirleik á gítar.“

Dagsferðir í Akrafjall

Smiðjuloftið teygir starf sitt út í náttúruna og er Akrafjallið í stóru hlutverki á því sviði.

„Við erum mjög spennt fyrir því að fá til okkar fjölskyldur og hópa í útiklifur í Akrafjalli. Við erum komin með leyfi fyrir dagsferðum og getum nú skipulagt útivistarferðir í þessari dásamlegu náttúruperlu sem Akranes og nágrenni er,“ segir Valgerður að lokum.

Nánar á heimsíðu Smiðjuloftsins.

Nánar á fésbókarsíðu Smiðjuloftsins.