„Ólsari með stórt Skagahjarta“

Aníta Ólafsdóttir markvörður kvennaliðs ÍA í knattspyrnu í viðtali við Skagafréttir.

„Skagahjartað er stórt og ég átti ekki í vandræðum með að velja ÍA þegar ég kom frá Víkingi úr Ólafsvík. Það komu nokkur önnur lið til greina en helmingur af ættinni hans pabba býr hérna á Skaganum. Og systir hennar ömmu, Guðbjörg Gísladóttir, er búsett á Skaganum. Ég er Ólsari með stórt Skagahjarta,“ segir Aníta Ólafsdóttir markvörður kvennaliðs ÍA. 

Aníta er fædd árið 2003 og lék upp yngri flokkana með Víkingi í heimabænum Ólafsvík. Aníta segir að hún hafi valið að vera í marki þar sem hún hefur alltaf verið hávaxinn. 

„Ég prófaði ýmsar íþróttir og þar á meðal fimleika. Ég sá það fljótt að fimleikar hentuðu mér ekki þar sem ég var svo hávaxinn. Ég prófaði sund, blak og körfubolta. Mér gekk vel að kasta og um tíma var vera að reyna að koma mér í frjálsar og spjótkastið. Ég valdi fótboltann og sé ekki eftir því, það er gott að vera hávaxinn í markinu.“ 

Aníta hefur verið í yngri landsliðum Íslands á undanförnum árum og leikið með U-16 og U-17 ára landsliðum Íslands. Framtíðin er því björt hjá þessum efnilega markverði. 

„Ég er aðeins farin að hugsa um framtíðina. Það heillar mig að komast í háskóla í Bandaríkjunum og fá skólastyrk samhliða fótboltanum. Ég er ekki komin langt með þær pælingar en aðeins farin að undirbúa það og skoða möguleikana. Ég er í Fjölbrautaskóla Vesturlands hér á Akranesi, Og ég bý á heimavistinni og í sumar líka. Í fyrra var ég hjá Ágústu Friðriksdóttur og Elvari Elíassyni í Jörundarholtinu. Það fer vel um mig hér á Skaganum og mér líður vel hérna.“ 

Eins og áður segir kom Aníta til ÍA fyrir þremur árum en hún segir að það hafi ekki verið erfið ákvörðun að fara frá Ólafsvík.

„Það var í raun ekkert annað að gera fyrir mig. Meistaraflokkur kvenna var settur á bið og ég þurfti að komast í stærri áskorun og taka framförum með reyndari leikmönnum. Ég fékk óvænt tækifæri í byrjunarliðinu í fyrrasumar þegar Tori Ornela sem var aðalmarkvörður liðsins þurfti að yfirgefa liðið með skömmum fyrirvara. Það er erfitt að vera markvörður á bekknum og bíða eftir tækifærinu. Það er ekki oft sem markverðinum er skipt útaf.  Loksins þegar tækifærið kom þá var það bara gaman en á sama tíma var ég smá stressuð fyrir fyrsta leikinn.  Pressan er alltaf mikil á markvörðum sem mega helst ekki gera mistök. Ég fór bara út í djúpu laugina og gerði mitt besta,“ sagði Aníta Ólafsdóttir.