Lýsa yfir áhyggjum af þróun barnaverndarmála á Akranesi



Velferðar- og mannréttindaráð Akraness lýsti yfir áhyggjum af þróun barnaverndarmála á Akranesi á fundi ráðsins sem fram fór í gær.

Í ályktun ráðsins er lagt til að starfsmaður verði ráðinn í fullt starf í þessum málaflokki og einnig verði skoðað að hefja verkefni um snemmtæka íhlutun í barnavernd.

Kristinn Hallur Sveinsson, formaður ráðsins, segir í samtali við Skagafréttir að barnaverndarmálum fari fjölgandi á landsvísu og það eigi líka við um Akranes.

„Þetta kemur í kjölfar þeirra þrenginga sem þjóðin hefur lent í útaf Covid-19 ástandinu. Staðan er sú hjá barnavernd á Akranesi að málafjöldi hjá starfsfólki er of mikill. Þess vegna er það skoðun okkar í Velferðar- og mannréttindaráði að það þurfi að bæta við starfsmanni vegna málafjölda. Að auki leggjum við til að verkefnið snemmtæk íhlutun verði skoðað hér á Akranesi. Snemmtæk íhlutun verkefnið lofar góðu hjá þeim sveitarfélögum sem komin eru af stað með þá vinnu. Á þeim stöðum hefur barnaverndarmálum fækkað með því að grípa inní fyrr í ferlinu, áður en málin verða alvarlegri. Verkefnið snemmtæk íhlutun tekur lengri tíma til að sýna fram á árangur. Að okkar mati í ráðinu er hvoru tveggja nauðsynlegt, að ráða starfsmann og fara í verkefnið snemmtæka íhlutun,“ sagði Kristinn Hallur Sveinsson.