Leggja til að hús Fjöliðjunnar verði rifið og nýtt byggt í staðinn



Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tillögu á fundi bæjarstjórnar í gær þess efnis að fresta ákvörðun um val á leið við uppbyggingu á Fjöliðjunni, vernduðum vinnu- og hæfingarstað.

Fresturinn gefur tækifæri til ítarlegrar skoðunar á uppbyggingaráformum með hliðsjón af breyttu skipulagi á aðliggjandi lóðum og fari fram samhliða fjárhagsáætlanagerð fyrir árið 2021.

Greinargerð frá Sjálfstæðisflokknum:

Bruninn í Fjöliðjunni á Akranesi í maí á síðasta ári varð öllum íbúum bæjarins mikið áfall ekki síst þeim er þangað sóttu sína vinnu. Þar sem skemmdir af völdum brunans urðu miklar varð strax ljóst að grípa yrði skjótt til bráðabirgðaráðstafana svo tryggja mætti hið gefandi starf er þar fer fram.

Það tókst og þá um leið skapaði bæjarstjórn sér nauðsynlegt andrými til þess að ákveða hvernig haga skyldi uppbyggingu á aðstöðu Fjöliðjunnar til framtíðar.

Fyrsta skref bæjarstjórnar var tekið í upphafi árs 2020, þegar hún tók einróma ákvörðun um að starfsemin yrði áfram á lóðinni að Dalbraut 10.

Í kjölfarið var skipaður starfshópur sem átti samkvæmt erindisbréfi að skila mögulegum sviðsmyndum um uppbyggingu starfseminnar við Dalbraut.

Samningar náðust á milli Akraneskaupstaðar og Festi hf um framtíðarlóð undir starfsemi dótturfélags fyrirtækisins, N1 sem rekur bensínstöð og dekkjaverkstæði.

Um leið losnuðu lóðir fyrirtækisins við Dalbraut og Þjóðbraut sem var hvalreki á fjörur starfshópsins í vinnuferlinu og opnaði á skipulag mun stærra svæðis og skapaði rými til þess að hýsa ýmsa tengda starfsemi Fjöliðjunnar eins og dósamóttöku og Búkollu nytjamarkaðs.

Þá er ljóst að frístundaþjónusta fyrir fötluð börn og ungmenni þarf húsnæði sem hæfir betur þörfum þess hóps og er tækifæri til að hugsa þá starfsemi í nálægð við starfsemi Fjöliðjunnar.

Á fundi bæjarráðs þann 15. október sl. ákváðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknar með frjálsum að uppbyggingu Fjöliðjunnar skyldi háttað á þá leið að rústir fyrra húss yrðu endurbyggðar og við það skeytt nýbyggingu samkvæmt teikningu frá árinu 2007.

Þrátt fyrir að hús Fjöliðjunnar hafi á sínum tíma verið sérhannað til starfseminnar sem hófst árið 1989, hafa þarfir og aðstæður breyst umtalsvert á þeim 30 árum sem síðan eru liðin.

Núna horfum við til næstu áratuga með uppbyggingu á aðstöðu þessarar mikilvægu starfsemi.

Fyrir bruna Fjöliðjunnar kom í ljós alvarlegur mygluvandi í húsnæðinu sem ekki hafði verið komist fyrir. Umfjöllun fjölmiðla á síðustu dögum um myglu í húsum ásamt þeim alvarlegu áhrifum sem hún getur haft á heilsu fólks og hversu erfitt hefur reynst að uppræta hana með viðgerðum, kallar á endurskoðun á því mati sem meirihluti bæjarráðs lagði til grundvallar sinni ákvörðun.

Fjölmörg dæmi einstaklinga á Akranesi sem glímt hafa við veikindi vegna myglu tala einnig sínu máli.

Dæmin sanna að fyrirtæki og sveitarfélög hafa reynt að koma í veg fyrir að þessi vágestur lifi í húsakynnum þeirra en niðurstaðan leiðir oftar en ekki til niðurrifs. Þá hefur jafnvel verið kostað miklu til sem reynist glatað fé.

Heilsa fólks er dýrmæt og verður ekki metin til fjár. Að hafa þessa vá yfirvofandi er óþarfa áhætta og að stefna viðkvæmum einstaklingum inn í mögulega ótryggt húsnæði er umhugsunarvert. Horfum saman til framtíðar.

Látum hanna og byggja nýtt húsnæði fyrir starfsemi Fjöliðjunnar. Húsnæði sem mætir öllum nútímakröfum sem gerðar eru til starfseminnar, mætir þörfum starfsmanna og væntingum skjólstæðinga nú og til lengri framtíðar. Horfum á ný tækifæri á stækkaðri lóð. Tækifærið er svo sannarlega til staðar, vilji er allt sem þarf.

Rakel Óskarsdóttir.
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir.
Einar Brandsson.
Ólafur Adolfsson.