Fjör á fjarfundaræfingum Karatefélags Akraness

Íþróttafélögin sem eru undir hatti ÍA hafa á undanförnum mánuðum gert ýmislegt til þess að halda iðkendum við efnið i Covid-19 faraldrinum.

Karatefélag Akraness hefur m.a nýtt tæknina til þess að koma leiðbeiningum til iðkenda. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

„Í vor þegar fyrri bylgja Covid-19 stóð sem hæst fór félagið að prófa sig áfram með að miðla æfingum í gegnum Zoom fjarfundarbúnaðinn. Það gekk vel þar sem að iðkendur og þjálfarar voru fljót að tileinka sér þessa nýju tækni. Í nóvember, þegar samkomubann var sett á að nýju, færðum við allar æfingar á ný yfir á Zoom. Þátttakan á æfingum hefur verið góð.

Þjálfarar Karatefélagsins hafa einnig sett saman kennslumyndbönd, þeir setja saman verkefni fyrir hverja viku á samfélagsmmiðla og á heimasíðu félagsins. Elstu iðkendurnir sem eru komnir lengst á sínum ferli æfa með Karatedeild Breiðabliks og Þórshamars í gegnum Zoom. Það gera þau til að fá enn meiri samkeppni, fjör og félagsskap. Vilhjálmur Þór Þóruson yfirþjálfari KAK og Breiðabliks hefur fengið þekkta erlenda þjálfara til að koma á þessar æfingar og kenna. Við stefnum því að gráðun í öllum flokkum í desember og ekkert stopp,“ segir í tilkynningu frá Karatefélagi Akranes.