„Þessi tíðindi eru högg fyrir mig“ – miklar breytingar boðaðar á starfi Hilmars „vitavarðar“

Eins og fram hefur komið eru umtalsverðar breytingar eru boðaðar á rekstri og innra vinnulagi hjá Akraneskaupstað. Á síðasta fundi bæjarráðs var nýtt skipurit lagt fram ásamt greinargerð og tillögum um stjórnkerfisbreytingar. Tillagan var samþykkt á þeim fundi bæjarráðs með 2 atkvæðum gegn 1.

Þessi mál verða til umræðu á næstu tveimur fundum bæjarstjórnar Akraness, í fyrra skiptið í dag 1. desember og síðari umræðan fer fram 15. desember. 

Rekstrarumhverfi Akranesvita/upplýsingamiðstöðvar verður breytt samkvæmt þeim tillögum sem nú þegar hafa verið samþykktar í bæjarráði. Núverandi stöðugildi starfsmanns í upplýsingamiðstöð á Breiðarsvæðinu og Akranesvita verður breytt í 20% stöðuhlutfall sem felst í því að taka á móti hópum. 

Hilmar Sigvaldason hefur verið í þessu starfi síðustu fimm ár en það má með sanni segja að Hilmar hafi komið Akranesi á kortið sem ferðamannabæ með eldmóði sínum. Hann opnaði Akranesvita með formlegum hætti fyrir ferðamenn þann 24. mars árið 2012. Og frá þeim tíma hefur hann unnið myrkrana á milli til að koma Akranesi á framfæri sem áfangastað fyrir ferðamenn. 

Samkvæmt tillögunni verður Hilmari boðið 80% starfshlutfall í Guðlaugu og eða innan íþróttamannvirkja – samhliða 20% starfi í móttöku hópa í Akranesvita. 

„Þessi tíðindi eru högg fyrir mig. Ég viðurkenni það alveg að mér líður ekki vel með þessar breytingar sem hafa verið boðaðar. Ég hef frá árinu 2012 lagt mikið á mig til að koma Akranesi á kortið fyrir ferðamenn. Vitinn hefur verið kjarninn í því verkefni. Á fyrsta árinu komu rétt rúmlega 3.200 gestir í Akranesvitann en sá fjöldi fór yfir 10.000 á árinu 2019. Ég brenn fyrir áhuga á þessu verkefni en það dregur aðeins úr manni kraftinn að fá slíkar fregnir. Ástandið er vissulega óvenjulegt vegna Covid-19. En það mun birta til aftur og áhuginn er til staðar hjá fólki að heimsækja vitann og gera eitthvað spennandi þar. Ég fór t.d. í gær á sunnudegi þegar ég átti frí til að taka á móti tónlistarfólki sem vildi taka upp tónlist í vitanum. Þar var á ferð Berglind María Tómastóttir og tveir upptökumenn með henni. Berglind heimsótti Akranesvitann í sumar í fyrsta skiptið og að hennar mati er eitthvað varið í hljómburð vitans. Berglind er í hljómsveitinni sem Björk Guðmundsdóttir fer með út um allt á tónleika. Slík tenging gæti komið Akranesi enn meira á kortið og þetta eru litlu skrefin sem þarf að taka til að koma Akranesi á kortið.“

Hilmar á eftir að funda með forsvarsmönnum bæjarins varðandi framhaldið. 

„Það er aðeins gert ráð fyrir að starfsmaður sé í 20% starfi á Breiðarsvæðinu og það er eitthvað sem ég sá ekki fyrir mér að yrði lendingin.  Það hefur margt jákvætt gerst á síðustu árum í uppbyggingu hér á Breiðarsvæðinu og svæðið vel í stakk búið að taka á móti gestum þegar Covid-19 ástandið gengur yfir. Ég hef notað þá þumalputtareglu að líklega fer fimmti hver gestur á Breiðarsvæðinu upp í vitann. Það koma því um 50.000 gestir á ári á þetta svæði – sem er mjög mikið að mínu mati. Þessi tíðindi komu mér á óvart og eins og áður segir þá er þetta töluvert högg að fá slíkar fréttir,“ segir Hilmar Sigvaldason. 

http://localhost:8888/skagafrettir/2020/11/30/umtalsverdar-breytingar-framundan-hja-akraneskaupstad-nytt-skipurit-og-tilfaerslur-a-starfsfolki/