Inga María er í jólastuði: „Eitthvað við þetta lag sem hreyfði við mér“

„Ég gaf þetta lag út í fyrsta sinn fyrir tveimur árum – en ég samdi það árið 2014. Það var eitthvað við þetta lag sem hreyfði við mér þegar ákvað að gera úr því þetta litla jólalag,“ segir tónlistarkonan Inga María Hjartardóttir sem gaf nýverið út skemmtilega jólaútgáfu af lagi sem hefur fylgt henni lengi. Lagið heitir á ensku „When Christmas Time Comes Around Again.“

Inga María er fædd á Akranesi og fékk sitt tónlistarlega uppeldi hér á Skaganum áður en hún fór í nám við hinn virta tónlistaháskóla Berklee College of Music í Bandaríkjunum þar sem hún lagði m.a. stund á djasshljómfræði.

„Árið 2018 kom það fyrst út á íslensku en ég tók þessa útgáfu upp heima hjá mér nýverið. Mér finnst mjög skemmtilegt að dunda mér við að fikta í þessum hlutum heima. Lagið varð til á þeim tíma. Eitt af verkefnunum sem ég fékk var að setja saman hljómagang eftir fyrirfram ákveðnum reglum – og semja síðan laglínu við. Það var eitthvað við verkefnið sem hreyfði við mér. Þegar þetta var allt klárt var ekkert annað í stöðunni en að semja texta líka og úr varð þetta litla jólalag. Ég ætlaði að sjálfsögðu að vera löngu búin að þessu en svona er lífið,“ segir Inga María Hjartardóttir við Skagafréttir.

Ættartréð:
Inga María Hjartardóttir, er fædd árið 1994 á Akranesi.
Foreldrar hennar eru Sigríður Indriðadóttir og Hjörtur Hróðmarsson.
Systur Ingu Maríu eru þær Silla Rún Hjartardóttir og Mirra Björt Hjartardóttir.