„Vítabaninn“ Dino Hodzic leikmaður ársins hjá Kára

Dino Hodzic, markvörður Knattspyrnufélagsins Kára, vakti mikla athygli á keppnistímabilinu í 2. deild karla á síðustu leiktíð.

Króatinn er einn hávaxnasti markvörður veraldar en hann er rúmlega tveir metrar á hæð. Dino kom til ÍA árið 2019 og var varamarkvörður liðsins en vorið 2020 gekk hann í raðir Kára.

Leikmenn Kára og fyrrum þjálfari liðsins, Gunnar Einarsson, völdu á dögunum leikmanna ársins. Niðurstaðan kom fáum á óvart og fékk Dino yfirburðakosningu í kjörinu.

Það er óhætt að segja að tímabilið 2020 hafi komið Dion á kortið á Íslandi og víðar. Hann gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnur frá andstæðingum Kára í fjögur skipti í röð. Það er einstakt afrek og fáir á heimsvísu sem hafa leikið slíkt eftir í deildarkeppni.

Í tilkynningu frá Kára kemur eftirfarandi fram:


Dino er mikill keppnismaður og leggur sig 100% fram í öllu sem hann gerir. Dino er líka frábær karakter sem hefur heillað bæði unga og aldna með jákvæðri og skemmtilegri framkomu hvort sem það hefur verið í kringum boltann eða vinnuna sína á Akranesvelli. Dino kann mjög vel við sig á Akranesi og eru vitarnir tveir í miklu uppáhaldi hjá honum. Dino er nú staddur heima í Króatíu og við sendum honum innilegar kveðjur frá Íslandi.