Verslunin Bjarg opnar dyrnar upp á gátt með nýrri vefverslun

Verslunin Bjarg er eitt af elstu fyrirtækjunum á Akranesi. Bjarg var stofnað árið 1966 og hefur verslunin þróast með ýmsum hætti í gegnum tíðina. Nýverið opnaði Bjarg nýja vefverslun, versluninbjarg.is, og hafa viðskiptavinir út um allt land tekið vel í þessa nýbreytni. 

Skagafréttir litu við í Bjargi á dögunum og þar sem að Ásta Björg Gísladóttir, Bára Ármannsdóttir og Hrefna Guðjónsdóttir voru teknar tali í miðri jólaösinni. 

Ásta Björg segir að árið 2020 hafi verið kaflaskipt en síðustu mánuðir hafi verið betri en vonir stóðu til. Ásta Björg á Bjarg ásamt eiginmanni sínum Örlygi Stefánssyni – en foreldrar hans hófu verslunarrekstur í Bjargi árið 1966. 

„Örlygur hóf störf árið 1973 og ég kom inn í þetta aðeins siðar og hef ekkert farið annað. Það er alltaf jafn gaman að mæta í vinnuna og ég hlakka til að hitta samstarfsfólkið og viðskiptavinina okkar á hverjum degi,“ segir Ásta. Hún bætir því við að árið 2020 hafi þrátt fyrir allt gengið ágætlega. 

„Í fyrstu bylgju Covid-19 fór allt mjög mikið niður. Hinsvegar var sumarið mjög gott, haustið var allt í lagi og desember hefur farið fram úr okkar vonum.“

Hrefna bætir því við að viðskiptavinir Bjargs hafi sýnt af sér mikla tillitssemi í undarlegum aðstæðum hafa verið í verslun – og þjónustu á þessu ári. 

„Það er undantekning ef þeir sem koma hingað inn eru ekki persónulegar sóttvarnir á hreinu. Fólk er mjög tillitssamt – gagnvart okkur og öðrum viðskiptavinum,“ segir Hrefna sem hefur starfað nánast samfellt í Bjargi frá árinu 1978. 

versluninbjarg.is fór í loftið 26. nóvember 

Bára Ármannsdóttir hefur á undanförnum mánuðum unnið að því verkefni að setja upp netverslunina sem hægt er að finna á slóðinni versluninbjarg.is. Hún segir að vefverslunin hafi farið vel af stað. 

Frá vinstri: Bára, Ásta Björg og Hrefna.

„Netverslunin var opnuð 26. nóvember s.l. og að okkar mati hefur þetta allt saman farið vel af stað. Vöruúrvalið í netversluninni er töluvert en það eru ýmsir hlutir sem verða aðeins í boði hér versluninni sjálfri. Ég stakk mér bara út í djúpu laugina við að koma þessari netverslun í loftið. Tæknin var til staðar og ég fór af stað að kynna mér þetta. Ég fékk góða aðstoð frá syni mínum, Heimi Berg, en þetta hefur gengið bara mjög vel. Það eru mörg handtök við að koma vöru inn á netið en við erum að læra eitthvað nýtt á hverjum degi og þetta er skemmtileg viðbót við það sem við höfum verið að gera hér í versluninni,“ segir Bára og bætir við.

„Ég held samt að það verði alltaf eftirspurn eftir því að koma í verslunina til að „koma við efnið“ sjá hlutina með eigin augum. Netverslunin er góð viðbót og víkkar líka út þann hóp sem mun versla við Bjarg. Yngra fólk hefur tileinkað sér það að versla á netinu. Við eigum því von á að yngra fólk versli í auknum mæli á versluninbjarg.is. Við fengum strax góð viðbrögð við netversluninni og framhaldið er því spennandi. 

Góður andi á vinnustaðnum

Vöruúrvalið hefur breyst og þróast töluvert á undanförnum árum. Á fyrstu árum verslunarinnar var m.a. hægt að kaupa húsgögn, hljómflutningstæki, hljómplötur, fatnað, og snyrtivörur í Bjargi. Hrefna Guðjónsdóttir brosir og hlær þegar hún rifjar upp ferðir til Reykjavíkur þar sem hún átti að velja hljómplötur til að selja í búðinni.  

„Þessi tími hefur verið dásamlega skemmtilegur. Ég kom hingað fyrir jólin 1978 í starfskynningu og var í hlutastarfi og afleysingum næstu árin. Frá árinu 1980 hef ég verið í fullu starfi hérna. Örlygur hringdi í mig árið 1980 og bauð mér starf, og á þeim tíma var ég á leið í aðra vinnu. Ég sé ekki eftir þessari ákvörðun. 

Ég byrjaði í hljómflutningsdeildinni og plötubúðinni og einnig var ég í húsgagnadeildinni. Við fórum í þau verkefni sem þurfti að leysa. Bjarg hefur því leikið stórt hlutverk á minni starfsævi. Ég hlakka til að fara í vinnuna. Hérna hitti ég margt fólk á hverjum degi og það er góður andi á vinnustaðnum. Við erum allar góðar vinkonur og þekkjumst vel. Stundum þurfum við varla að tala saman, við vitum alveg hvað á og þarf að gera,“ segir Hrefna en starfsmenn í Bjargi eru alls fjórir en Margrét Arnfinnsdóttir var ekki á svæðinu þegar viðtalið var tekið. 

Eitt af elstu fyrirtækjum Akraness 

Eins og áður segir er Bjarg eitt af elstu fyrirtækjum Akraness. Sagan spannar rúmlega hálfa öld og segir Ásta Björg að hún finni vel fyrir því í versluninni hve mikið Akranes hefur stækkað á undanförnum árum.  

„Verslunarrekstur er í raun lífsstíll og við erum að hugsa langt fram í tímann, það tekur sex til átta mánuði, frá því að varan er pöntuð og þar til hún kemur til okkar frá birgjunum. Gæði eru líka stórt atriði í sögu Bjargs. Það ekkert gaman að selja vörur sem standast ekki gæðakröfur,“ segir Ásta. Hún bendir einnig á þá áhugaverðu staðreynd hversu mikil breyting varð á samfélaginu á Akranesi með tilkomu Hvalfjarðarganganna árið 1998. 

„Að mínu mati þá breyttu Hvalfjarðargöngin eiginlega öllu fyrir okkur sem hér búa og starfa. Það varð allt einfaldara fyrir t.d. okkur að nálgast vörur hjá birgjum í Reykjavík. Og þetta virkar í báðar áttir. Sem dæmi má nefna að brottfluttir Akurnesingar fóru að koma í auknu mæli til að versla á æskuslóðunum. Bærinn stækkaði hratt eftir að göngin voru opnuð og það hefur þau áhrif að það var meira að gera hjá okkur. Það er fjölbreytni til staðar í verslun hér á Akranesi. Fleiri verslanir og meira vöruúrval styrkir heildina, og það gerir bæinn okkar enn áhugaverðari,“ segir Ásta.