Skaginn skorar á móti vindi !

Allir sem stunda íþróttir eða taka þátt íþróttastarfi vita að árið 2020 var mikil áskorun vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Erfiðleikarnir hafa hinsvegar þjappað Skagamönnum saman eins og svo oft áður.

Á árinu 2020 hafa iðkendur, þjálfarar og starfsmenn, stjórnafólk, sjálfboðaliðar og stuðningsaðilar Knattspyrnufélags ÍA snúið bökum saman til að halda starfinu gangandi svo að mikill sómi er af.

Það er á svona tímum sem orð eins og  íþróttabærinn og knattspyrnubærinn fá aukið vægi og skilningur eykst á því að íþróttir skipta miklu máli í þroska ungs fólks og sem hluti af samfélaginu á Akranesi. 

Strákar og stelpur hafa barist hetjulega á vellinum í sumar og margir ungir leikmenn hafa öðlast mikla reynslu sem á eftir að nýtast þeim vel.

Sama má segja um alla þjálfara og starfsmenn félagsins sem hafa sýnt ótrúlegan dugnað, metnað og fagmennsku við erfiðar aðstæður og þar sem leitað hefur verið nýrra leiða í þjálfun og samskiptum við iðkendur.

Auk þess að tryggja faglegt starf er mikilvægt að fjármögnun starfseminnar sé byggð á traustum grunni.

Þrátt fyrir erfitt rekstararumhverfi á árinu 2020 stefnir í að reksturinn verið réttu megin við núllið nú um áramótin og að félagið sé nær skuldlaust.

Margt bendir til þess að árið 2021 verði þungt rekstrarlega en ástæða er til bjartsýni m.a. vegna þess að Akraneskaupstaður, sem er mikilvægur bakhjarl Knattspyrnufélags ÍA, hefur ákveðið að leggja aukið fé til íþrótta á Akranesi á nýju ári.

Fyrir það er mikilvægt að þakka sérstaklega nú þegar árið 2020 er gert upp.

Framundan eru æfingar og undirbúningur fyrir fótboltaárið 2021 og þá þarf Knattspyrnufélag ÍA enn betur en áður að ná fram þeim mikilvæga kjarna baráttu, sigurgleði og samstöðu sem hefur einkennt gula og glaða um langt árabil. 

Gleðilegt ár, áfram ÍA !

Magnús Guðmundsson formaður Knattspyrnufélags ÍA
Geir Þorsteinsson framkvæmdastjóri Knattspyrnufélags ÍA