Sundabraut klár 2030? – Bæjarstjórn Akraness fagnar nýrri skýrslu og hvetur til aðgerða strax

Bæjarstjórn Akraness fagnar nýrri skýrslu um lagningu Sundabrautar þar sem skýrðir eru helstu valkostir varðandi legu hennar og þverun Kleppsvíkur. Skýrslan er vel unnin og greinargóð og ljóst að hún er góður grunnur fyrir ákvörðunartöku um að hefja undirbúning að lagningu Sundabrautar nú þegar.

Þetta kemur fram í bókun sem Bæjarstjórn Akraness sendi frá sér í gær.

Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar er brú yfir Kleppsvík talin mjög vænlegur valkostur, bæði hvað varðar kostnað og einnig myndi hún nýtast betur fyrir almenningssamgöngur, hjólandi og gangandi umferð. Það er von okkar að þessi lausn höggvi á þann hnút sem verið hefur varðandi val á samgöngumannvirki til þverunar Kleppsvíkur. Hins vegar er afar mikilvægt að fara á sama tíma í allt verkefnið, þannig að framkvæmdir við þverun Kollafjarðar og vegalagningu á Álfsnesi, Gufunesi og Geldinganesi verði ekki látnar bíða efir því að þverun Kleppsvíkur verði lokið. Jafnvel mætti hugsa sér til að flýta framkvæmdum eins og kostur er að hefja lagningu Sundabrautar að norðanverðu.

Það velkist engin í vafa um mikilvægi Sundabrautar og ljóst er að hún verður ekki aðeins mikilvæg samgöngubót fyrir íbúa höfuðborgarinnar, hún verður ekki síður stór samgöngubót fyrir Vestlendinga, Vestfirðinga, Norðlendinga og jafnvel Austfirðinga. Sundabraut styttir vegalendir, eykur umferðaröryggi, bætir almenningssamgöngur og tryggir greiðari umferð. Það felur síðan í sér sterkari og heildstæðari vinnumarkað á suðvesturhorni landsins sem og að bæta aðgengi Vesturlands og annarra landshluta að Reykjavík og styrkja þar með hlutverk hennar sem miðstöð viðskipta og stjórnsýslu.

Bæjarstjórn Akraness hvetja því samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Reykjavíkurborg að hefja nú þegar undirbúningsvinnu við lagningu Sundabrautar þannig að verkefninu verði lokið eigi síðar en árið 2030.

Bókuninni verður komið áfram áleiðis til þingmanna Norðvesturkjördæmis og Reykjavíkurkjödæmis, Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Reykjavíkurborgar, Samtaka sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu, Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og annarra.