Gull og silfur hjá Rósu og Demi á Íslandsmótinu í Latin dönsum

Rósa Kristín Hafsteinsdóttir og Demi Van Den Berg hafa á undanförnum misserum skipað sér í fremstu röð á landsvísu í dansíþróttinni.

Þrátt fyrir ungan aldur hafa frænkurnar frá Akranesi öðlast mikla keppnisreynslu hér á landi og einnig á alþjóðlegum mótum.

Um síðustu helgi fagnaði Rósa Kristín Íslandsmeistaratitli í Latin dönsum ásamt Aroni Loga Hrannarssyni í flokki ungmenna. Þau eru 15 og 16 ára en náðu einnig silfurverðlaunum í fullorðinsflokki á þessu móti.

Demi Van Den Berg og dansfélagi hennar Felix Einarsson fengu silfurverðlaun í flokki ungmenna í latin dönsum og enduðu í fimmta sæti í flokki fullorðinna.

Aron og Rósa æfa hjá Dansdeild HK en Felix og Demi hjá Dansíþróttafélagi Kópavogs.

Foreldrar Rósu eru Kristjana Jónsdóttir (Krissý) og Hafsteinn Gunnarsson. Demi van den Berg er dóttir Þóru Jónsdóttur og Machiel van den Berg. Rósa, sem verður 16 ára í júlí á þessu ári og Demi sem fagnaði 15 ára afmæli sínu núna í febrúar eru því náskyldar þar sem að mömmur þeirra eru systur.

Demi og Felix.
Aron og Rósa.