Knattspyrnufélag Akraness lýsir yfir stuðningi við tvær tillögur af fjórum um breytingar í efstu deild karla

Ársþing Knattspyrnusambands Íslands fer fram laugardaginn 27. febrúar og þar liggja fyrir fjórar tillögur um breytingar á keppni í efstu deild karla. Knattspyrnufélag Akraness hefur lagt fram tillögu og félagið styður einnig tillögu frá Fram eins og kemur fram í tilkynningu frá félaginu hér fyrir neðan.


Á laugardaginn mun ársþing KSÍ taka til umfjöllunar og afgreiðslu fjórar tillögur um breytingar á lögum sambandsins sem munu leiða af sér breytingu á keppni í efstu deild karla og reyndar gerir ein tillagan einnig ráð fyrir breytingu á keppni í 1. deild karla.

Knattspyrnufélag ÍA hefur lagt fram þá tillögu að leikjum verði fjölgað í 12 liða deild þannig að leikin verði þreföld umferð í stað tveggja umferða eins og nú er.

Knattspyrnufélagið Fram hefur lagt fram tillögu um 14 liða efstu deild, tillaga sem Knattspyrnufélag ÍA lagði fram á síðasta ári. Stjórn

Knattspyrnufélags ÍA styður þessar tillögur en til að tillaga fái samþykki þarf hún að fá stuðning 2/3 fundarmanna. Knattspyrnufélag ÍA telur að þessar tillögur falli vel að þeirri stefnu félagsins að gefa ungum leikmönnum aukin tækifæri í keppni þeirra bestu og veitir öllum félögum möguleika á auknum tekjum með fleiri leikjum og sölu efnilegra leikmanna til erlendra félaga. Í samtölum forsvarsmanna Knattspyrnufélags ÍA við aðra í hreyfingunni virðist tillaga Fram hafa hvað mestan stuðning.

Knattspyrnufélag ÍA styður hins vegar ekki hinar tvær tillögurnar sem liggja fyrir.

Í fyrsta lagi tillögu starfshóps KSÍ um nýja þriðju umferð sem yrði skipt í tvennt að loknum tveimur umferðum, keppni efri 6 liða innbyrðis annars vegar og neðri 6 liða innbyrðis hins vegar.

Stjórn Knattspyrnufélags ÍA telur þessa tillögu geta breikkað þá fjárhagslegu gjá sem þegar er til staðar á milli íslenskra félaga. Með því að skipta keppni í efstu deild í tvo hluta gæti orðið til keppni í neðri hluta sem er lítt áhugaverð fyrir þann breiða hóp áhugafólks sem stendur að baki knattspyrnunni.

Í öðru lagi styður Knattspyrnufélaga ÍA ekki tillögu Fylkis um 10 lið í efstu deild með þrefaldri umferð og 14 liða 1. deild með tvöfaldri umferð.

Knattspyrnufélag ÍA telur að fækkun liða í efstu deild styðji ekki við þau markmið að auka framgöngu ungra leikmanna enda fækkar möguleikum þeirra með færri liðum í efstu deild.