Allar tillögur um breytingar í efstu deild karla felldar á ársþingi KSÍ

Ársþing Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, fór fram um s.l. helgi. Þar bar hæst að lagðar voru fram fjórar mismunandi tillögur um breytingar á mótafyrirkomulagi í efstu deild karla, PepsiMax-deildinni.

ÍA og Fylkir lögðu fram tillögur sem félögin drógu síðan til baka. ÍA studdi þess í stað við bakið á tillögu frá Fram sem gekk út á að fjölga liðum úr 12 í 14.

Kosið var um tillögu Fram og einnig um tillögu frá starfshópi KSÍ þar sem að rauði þráðurinn var að skipta 12 liða deild í tvo hluta eftir síðari umferðina. Þá tæki við þriðja umferðin þar sem að 6 efstu liðin myndu leika gegn hvort öðru í keppni um Íslandsmeistaratitilinn en 6 neðstu liðin myndu keppa gegn hvort öðru í baráttu um fall í 1. deild.

Skemmst er frá því að segja að báðar tillögurnar voru felldar og verður engin breyting á keppnisfyrirkomulaginu í efstu deild karla á næstu leiktíð, 2021.

Til þess að fá slíka tillögu í gegn á ársþingi KSÍ þarf 2/3 hluta atkvæða á þinginu. Alls greiddu 58% með tillögu Fram um 14 liða deild og vantaði því 8% í viðbót til þess að tillagan yrði samþykkt.