Nýtt kynningarmyndband frá FVA – rætt við nemendur um skólalífið og helstu kosti FVA

Stofnun Fjölbrautaskólans á Akranesi markaði tímamót í skólamálum á Vesturlandi. Samningur sveitarfélaga á Vesturlandi og menntamálaráðuneytis 1987 um að reka öflugan framhaldsskóla bætti jafnframt aðstöðu Vestlendinga til að afla sér menntunar.

Í dag gegnir FVA mikilvægu hlutverki í samfélagi þar sem fólki þarf að standa til boða fjölbreytt tækifæri til að auka hæfni sína á lífsleiðinni. FVA setti á dögunum í loftið áhugavert myndband þar sem að rætt er við nemendur um skólalífið og helstu kosti þess að stunda nám í FVA.

Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi er rótgróinn áfangaskóli sem starfar skv. þremur gildum: jafnrétti, virðingu og fölbreytileika. Í boði er bæði verk- og bóknám. Þriggja ára stúdentsbrautir: félagsfræðabraut, náttúrufræðabraut og opin stúdentsbraut sem skiptist í íþrótta- og heilsusvið, opið svið, tónlistarsvið í samstarfi við Tónlistarskóla Akraness, tungumálasvið, viðskipta- og hagfræðisvið og afreksíþróttasvið í samstarfi við ÍA og Akraneskaupstað og nýtt lista- og nýsköpunarsvið. Iðn- og verknámsbrautir: málmiðngreinar, rafiðngreinar og tréiðngreinar.

Einnig framhaldsskólabraut, sjúkraliðabraut, starfsbraut og viðbótarnám til stúdentsprófs eftir starfs- og listnám og auk þess öflugt dreifnám fyrir eldri nemendur í tré- og málmiðngreinum.

Skólinn rekur mötuneyti fyrir nemendur og starfsmenn og heimavist fyrir nemendur með 30 tveggja manna herbergjum – sem nýverið voru endurnýjuð.