Club 71, félagsskapur Skagamanna sem fæddust árið 1971, fengu á dögunum Menningarverðlaun Akraness árið 2016. Verðlaunin voru veitt við setningu lista – og menningarhátíðarinnar Vökudaga. Þetta kemur fram á akranes.is.
Hinn öflugi árgangur Club 71 hefur staðið fyrir fjölda viðburða á Akranesi á undanförnum árum þar sem helst ber að nefna árlegt þorrablót Skagamanna sem meðlimir undirbúa og framkvæma í sjálfboðavinnu og fjölsóttan brekkusöng á Írskum dögum.
Ágóði þorrablótsins hefur runnið til íþrótta- og menningarstarfs á Akranesi.
Þorrablótin hafa vaxið ár frá ári og eru afar vinsæl og vel sótt.
Í máli Ingþórs Bergmanns Þórhallssonar, formanns menningar- og safnanefndar kom fram að starf Club 71 hafi sett jákvæðan svip á bæjarbraginn og auðgað menningarlíf bæjarbúa. Þorrablót Club 71 sé orðinn fastur hluti af menningarstarfsemi á Akranesi. Það var Sævar Freyr Þráinsson sem veitti verðlaunagripnum móttöku fyrir hönd hópsins.
Eftirtaldir listamenn hafa fengið menningarverðlaun Akraness:
- 2015 Vitinn, félag áhugaljósmyndara á Akranesi
- 2014 Heiðrún Hámundardóttir tónmenntakennari
- 2013 Guðmundur Sigurðsson hagleiks- og hugsjónamaður
- 2012 Vinir hallarinnar fyrir menningar- og listalíf
- 2011 Lárus Sighvatsson fyrir starf sitt sem skólastjóri Tónlistarskólans
- 2010 Flosi Einarsson tónlistarmaður
- 2009 Þjóðlagasveit Tónlistarskóla Akraness
- 2008 Bókaútgáfan Uppheimar
- 2007 Haraldur Sturlaugsson og Ingibjörg Pálmadóttir vegna Haraldarhúss