„Margt höfum við félagar brallað í gegn um tíðina en sennilega er þetta með því allra skemmtilegasta sem við höfum gert saman,“ skrifar leikarinn Hallgrímur Ólafsson eða Halli Melló eins og Skagamaðurinn er ávallt kallaður.
Þar vitnar Halli Melló í skemmtikvöld sem fram fór í Gamla Kaupfélaginu á Vökudögum um s.l. helgi. Þar skemmti hann ásamt Góa eða Guðjóni Karlssyni samstarfsfélaga hans úr Þjóðleikhúsinu.
„Þetta varð til hjá okkur þegar við Gói lékum saman hjá Leikfélagi Akureyrar. Þar héldum við nokkra svona tónleika á Græna Hattinum og það gekk vonum framar. Þetta verkefni lá í dvala í nokkur ár og í millitíðinni höfum við unnið í mörgum sýningum saman og margar nýjar sögur hafa orðið til. Mér datt í hug að við þyrftum að endurtaka leikinn og Vökudagar voru tilvalið tækifæri og við slógum til,“ segir Halli í samtali við Skagafréttir. Skagamenn tóku vel við sér og það seldist upp á sýninguna á mettíma.
„Fólkið virtist kunna vel að meta sönginn og sögurnar sem fengu að fljóta. Við reynum að blanda saman tónlist og svona hálfgerðu spontant uppistandi á milli laga með sögum úr leikhúsinu. Af okkur sjálfum sem og kollegum. Það er mikill áhugi á að við endurtökum leikinn og það verður sennilega mjög fljólega, við erum að finna lausa dagsetningu,“ bætti Halli Melló við.
Það er mikill áhugi á að við endurtökum leikinn og það verður sennilega mjög fljólega, við erum að finna lausa dagsetningu
Gestir sýningarinnar leyndu ekki ánægju sinni með verkefnið og hér eru nokkur komment frá þeim.