Ótrúlegar útskýringar vegna lyfjamála í íþróttum

Lyfjamál í keppnisíþróttum koma upp með reglulegu millibili. Sjaldan kemur það fyrir að játning liggi fyrir um leið og niðurstöðurnar úr lyfjaprófinu sýna fram á notkun ólöglegra lyfja. Reglan er yfirleitt sú að íþróttafólkið dregur fram ýmsar skýringar á niðurstöðunni og hér fyrir neðan er stikla á stóru í furðulegustu afsökunum. Þar kemur krem sem á að örva hárvöxt frá Suður-Kóreu við sögu.

London Evening Standard greinir frá því að knattspyrnumaðurinn Kang Soo-il (27), sem átti að leika sinn fyrsta landsleik á dögunum, hafi fallið á lyfjaprófi. Þar kom í ljós að Soo-il hafði notað steralyfið metyltestosteron. Hann fékk fimmtán leikja keppnisbann. Kang Soo-il sagði að hann hefði notað krem til þess að örva skeggvöxt – og ólöglega lyfið sé að finna í þessu kremi.

Bandaríski spretthlauparinn LaShawn Merrit reyndist hafa notað DHEA og pregnenolone. Hann útskýrði niðurstöðuna með notkun á lyfi sem hann notaði í þeirri von að getnaðarlimur hans myndi stækka.

Langhlauparinn Fatima Yvelain féll á lyfjaprófi árið 2012 vegna notkunar á EPO. Yvelain útskýrði niðurstöðuna með því að vísa í mikla úrkomu í borginni þar sem maraþonhlaupið fór fram. Hún taldi að hún hefði fengið ólöglega efnið í líkama sinn með því að hlaupa í pollum á meðan keppnin stóð yfir. Þess má geta að aðrir keppendur sem hlupu í sömu polla og Yvelain voru einnig lyfjaprófaðir án þess að niðurbrotsefni af EPO færi þar að finna.

Daniel Plaza frá Spáni var sýknaður árið 2006 vegna keppnisbanns sem hann fékk árið 1996. Árið 1996 fannst metyltestosteron í líkama hans. Plaza hélt ávallt fram sakleysi sínu og taldi að ólöglega efnið hafi borist í líkama sinn í gegnum munnmök. Tíu ára barátta hans skilaði árangri árið 2006 þegar hann var sýknaður.

Bandaríski spretthlauparinn Justin Gatlin, sem tvívegis hefur fallið á lyfjaprófi, útskýrði síðara fallið með nuddtíma sem hann fór í. Gatlin taldi að nuddkonan hafi notað testósterón hormóna í nuddolíuna og nuddað efninu inn í líkama hans. Gatlin var sannfærðum að um hefndaraðgerð hafi verið að ræða. Gatlin fékk átta ára keppnisbann.

Gatlin taldi að nuddkonan hafi notað testósterón hormóna í nuddolíuna og nuddað efninu inn í líkama hans.

Larisa Lazutina frá Rússlandi var tekinn eftir keppni í langhlaupi á Ólympíuleikunum árið 2002 í Sydney í Ástralíu. Hún var svipt gullverðlaunum en Lazutina sagði að sálfræðingi hennar væri um að kenna – en sálfræðingurinn var kona og það var útskýringin hjá Rússanum sem fékk tveggja ára keppnisbann.

Alberto Contador einn þekktasti hjólreiðamaður allra tíma féll á lyfjaprófi árið 2010. Spánverjinn kenndi matreiðslumanni um niðurstöðuna. Contador taldi að kjöt sem hann borðaði á meðan keppnin fór fram hafi fellt hann á lyfjaprófinu.

Bandaríkjamaðurinn Tyler Hamilton var tekinn fyrir að vera með of mikið magn af blóðvökva í líkama sínum. Þetta er þekkt aðferð til þess að bæta þol. Íþróttafólkið tekur blóðvökva úr líkama sínum, geymir það í kæli í einhvern tíma, og dælir því aftur inn í í líkamann eftir nokkurn tíma og þá hefur líkaminn náð að vinna upp að tap sem varð á sínum tíma. Fjöldi rauðra blóðkorna er því mun meiri en áður og súrefnisflutningurinn er því meiri en áður og það leiðir af sér betra þol. Hamilton útskýrði niðurstöðuna með þeim hætti að í líkama hans væri að finna „tvíbura“ sem framleiddi blóðkorn – og af þeim sökum væri hann með of mikið magn af rauðum blóðkornum.