Gaioz Nigalidze, landsmeistari í Georgíu í skák, var staðinn að því að hafa rangt við á alþjóðlegu móti í Dubai árið 2015. Nigalidze vakti athygli með tíðum ferðum sínum á salernið og mótshaldarar fengu ábendingu um að hegðun hans væri grunsamleg þegar hann var að tefla gegn Tigran L Petrosian frá Armeníu.
Nigalidze vakti athygli með tíðum ferðum sínum á salernið
Farsími fannst á salerninu – og neitaði Nigalidze að hann hefði notað farsímann til þess að skipuleggja næstu leiki í skákinni í gegnum forrit sem var virkt í símanum. Það komst hinsvegar upp um svindlið þar sem að Nigalidze var skráður inn í ýmis samskiptamiðla í símanum sem fannst – en hann neitaði í fyrstu að vera eigandi símans.
Petrosian segir í viðtali við Daily Telegraph að hegðun Nigalidze hafi verið undarleg frá upphafi. „Hann hljóp nánast inn á salernið í hvert sinn eftir að ég hafði leikið. Hann fór ávallt á sama stað þrátt fyrir önnur salerni væru laus. Ég bað yfirdómarann um að hafa auga með honum og þetta var niðurstaðan.”
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slíkt svindl kemst upp í skákíþróttinni. Borislav Ivanov frá Búlgaríu fékk fjögurra mánaða keppnisbann árið 2013 – vegna gruns um að hann hefði notað skákforrit sér til aðstoðar. Árið 2008 var skákmaður frá Íran dæmdur úr leik á móti í Dubai þar sem hann fékk ábendingar um leiki í gegnum SMS-skeyti.