Arnór Smárason var á dögunum kallaður inn í íslenska landsliðið í knattspyrnu á ný efir langa fjarveru. Arnór var valinn eftir að annar Skagamaður Björn Bergmann Sigurðarson varð að draga sig úr hópnum vegna meiðsla.
Arnór verður því í landsliðinu sem mætir Króatíu laugardaginn 12. nóvember í undankeppni HM. Skagafréttir ræddu við Arnór þar sem hann var staddur í Parma á Ítalíu í æfingabúðum Íslands.
Hvernig var tilfinningin að fá símtalið um landsliðsvalið frá landsliðsþjálfaranum?
„Það var virkilega skemmtilegt að fá símtal frá Heimi Hallgrímssyni landsliðsþjálfara, var ekkert sérstaklega búinn að búast við því, sem gerði það ennþá sætara. Flott gulrót svona í lok tímabilsins hér úti“ sagði Arnór en hann leikur með Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni.
Arnór Smárason er 28 ára gamall Skagamaður, sonur Smára Guðjónssonar og Guðlaugar Sverrisdóttur.
Arnór fór í atvinnumennsku áður en hann lauk grunnskólanámi en hann samdi við hollenska liðið Heerenveen árið 2004 þegar hann var 16 ára gamall en hann er fæddur 7. september árið 1988.
Atvinnumannaferill Arnórs:
2008–2010 Heerenveen (Holland) 25 leikir (5 mörk)
2010–2013 Esbjerg (Danmörk) 60 (14)
2013–2015 Helsingborg (Svíþjóð) 53 (12)
2015 → Torpedo Moskva (Rússland) (að láni) 11 (2)
2016– Hammarby IF
Arnór samdi við Hammarby í Stokkhólmi fyrir þetta tímabil og hann stimplaði sig strax inn í liðið. Hammarby er 100 ára gamalt félag en hefur aðeins einu sinni fagnað meistaratitlinum í Svíþjóð árið 2001. Gríðarlegur áhugi er hjá stuðningsmönnum liðsins og eru alltaf 25.000 áhorfendur á Tele2 leikvangingum sem tekur 33.000 áhorfendur.
„Þetta var mitt fyrsta tímabil með Hammarby og ég stimplaði mig strax inn í liðið og spilaði nánast alla leiki sem er alltaf jákvætt. Við byrjuðum tímabilið ekki nógu vel en unnum á og vorum mjög sannfærandi seinni hlutann á tímabilinu. Við enduðum um miðja deild sem var markmið ársins, en við setjum stefnuna hærra á næsta tímabili enda allt til alls hjá klúbbnum til þess. Við eru með frábæra stuðningsmenn en það eru alltaf yfir 25.000 á hverjum heimaleik. Það er rosalega gaman að vera partur af svona mikilli stemmningu.
Ég spilaði flesta leiki sem hægri miðjumaður, skoraði 4 mörk og lagði upp einhver fleiri sem er allt í lagi, en það er alltaf hægt að gera betur,“ sagði Arnór en hann hefur ýmist leikið sem framherji eða kantmaður á ferlinum.“
Arnór er tíður gestur á Akranesi og á Flórída-Skaganum líður honum vel.
„Það fyrsta sem ég geri þegar ég kem heim til Íslands er að fara heim á æskuheimilið á Bjarkagrundina og faðma mína nánustu. Oftar en ekki er hátíðarmatur á boðstólnum. Mér finnst rosa gott að kíkja aðeins heim og hugsa um annað en fótbolta, og hótel mamma stendur alltaf fyrir sínu. Á sumrin reyni ég að fara í golf á Garðavelli og kíki stundum á æfingar hjá ÍA, þar eru menn oftast léttir.“
Á sumrin reyni ég að fara í golf á Garðavelli og kíki stundum á æfingar hjá ÍA, þar eru menn oftast léttir.
Að lokum var landsliðsmaðurinn inntur eftir góðum ráðum fyrir þá sem yngri eru og ætla sér langt í hverju sem þau taka sér fyrir hendur.
Arnór hefur stundað nám samhliða fótboltanum. Þegar hann hóf ferilinn Heerenveen í 10. bekk kom hann heim til Íslands um vorið í lokaprófin í Grundaskóla og skilaði hann því verkefni af sér með glæsibrag. Arnór er einnig með stúdentspróf frá VMA á Akureyri sem hann tók utanskóla.
„Fyrst og fremst þá er mikilvægt að setja sér markmið og hafa trú á sjálfum sér. Það þarf að leggja hart að sér og stunda heilbrigt líferni. Hvað mig varðar að þá var ég með fótboltamark úti í garði þegar ég var yngri og var þar öllum stundum. Notaði húsið heima sem batta fyrir sendingar og móttöku meðal annars og það er ekki spurning að svona hlutir hafa hjálpað mér að ná lengra,“ sagði Arnór Smárason.