Pistill eftir Sigurð Elvar Þórólfsson.
„Segðu mér nú eitthvað skemmtilegt,“ var það fyrsta sem amma mín heitin sagði í hvert einasta skipti sem ég heimsótti hana á Háholtið. Guðbjörg Sigríður Þórólfsdóttir nennti ekki að eyða miklum tíma í eitthvað röfl um leiðinlega hluti. Þessi orð ömmu „Buggu“ hafa í gegnum tíðina öðlast enn meira vægi hjá mér og eru í raun ástæðan fyrir því að fréttavefurinn skagafrettir.is fer í loftið í dag.
Skagafrettir.is er fjölskylduverkefni og fréttirnar verða skrifaðar á mörgum stöðum á Akranesi og víðar.
Helsta markmiðið er að segja sögur frá Akranesi sem flestir vilja heyra. Eitthvað sem er jákvætt, skemmtilegt, fróðlegt. Á „Flórída-Skaganum“ verða slíkar sögur til á hverjum einasta degi í kraftmiklu og ört vaxandi samfélagi. Ef þið lesendur góðir gætuð bent okkur á slíkar sögur þá er það vel þegið. Það þarf að segja frá því sem vel er gert og koma því til skila.
Sigurður Elvar Þórólfsson heit ég og er ritstjóri og ábyrgðarmaður fréttamiðilsins skagafrettir.is. Ég ólst upp á Bjarginu við Laugarbraut 7, þar sem foreldrar mínir (Ævar og Stína) búa enn.
Ég hef starfað við fjölmiðla frá árinu 2000. Áður en ég datt inn í fjölmiðlaveröldina starfaði ég sem íþróttakennari í Borgarnesi, Akranesi og Heiðarskóla. Ég fékk starf sem íþróttafréttamaður á Morgunblaðinu/ mbl.is og þar vann ég í einn áratug, síðar var ég ráðinn sem íþróttafréttastjóri á 365 miðlum þar sem ég starfaði í tæplega þrjú ár. Á undanförnum árum hef ég skrifað og ritstýrt tímaritinu Golf á Íslandi. Samhliða því hef ég séð um fréttaflutning fyrir golf.is á Golfsambandinu þar sem ég starfa sem útbreiðslustjóri. Ég hef líka verið á sjó, en sú saga verður ekki sögð hér – í bili allavega.
Miðað við þær undirtektir sem við á skagafrettir.is höfum fengið á undirbúningstímabilinu þá er ég sannfærður um að þetta fjölskylduverkefni á eftir að fá góðan meðbyr hjá Skagamönnum nær og fjær.
Bestu kveðjur; Sigurður Elvar.