Erum með leynivopn á bekknum segir Sigurður Mikael úr meistaraliði árgangs 1983
Það verður mikil knattspyrnuhátíð í Akraneshöllinni á laugardaginn þar sem árlegt árgangamót ÍA fer fram. Árgangamótið fór fyrst fram í desember árið 2011 og hefur vaxið með hverju árinu sem líður. Í ár eru 19 lið í karlaflokki og 6 lið í kvennaflokki.
Aftari röð frá vinstri: Páll Gísli Jónsson, Andrés Vilhjálmsson, Þórður Birgisson, Alfreð Gissurarson, Ómar Daníel Halliwell, Hróðmar Halldórsson. Fremri röð frá vinstri: Anton Kristjánsson, Sigurður Mikael Jónsson, Stefán Orri Ólafsson, Garðar Gunnlaugsson og Helgi Valur Kristinsson.
Dregið var í riðla með miklum tilþrifum nemenda á leikskólanum við Vallarsel og verða ríkjandi meistarar í karlaflokki í C-riðli. Mótið hefst kl. 13.30 laugardaginn 12. nóvember og er óhætt að mæla með því að mæta á svæðið og sjá mögnuð tilþrif hjá gömlum og ungum kempum.
Sigurður Mikael Jónsson fagnaði sigri í fyrra með 1983 árganginum og segir Sigurður að markmiðin séu skýr hjá liðinu i ár – og þeir óttist ekki áskorunina að verða fyrsta liðið til þess að verja titilinn.
Á fésbókarsíðu Árgangamótsins fer fram mjög skemmtileg og áhugaverð umræða um mótið og er óhætt að segja að keppendur séu mjög yfirlýsingaglaðir og mikill undirbúningur hefur átt sér stað hjá flestum liðum.
Við erum komnir til að verða fyrsti árgangurinn í sögu mótsins til að verja titilinn
„Við erum ekki mættir til að dansa ársgamlan sigurhring í kringum höllina með bikarinn okkar. Við erum komnir til að verða fyrsti árgangurinn í sögu mótsins til að verja titilinn. Við vorum besta liðið í fyrra en nú þurfum við að sýna og sanna á ný að við séum enn besta liðið. Það verður ekki auðvelt að verja dolluna, eins og hefur sýnt sig, en við verðum með sama frábæra kjarnann, hryggjarsúlu frá vörn til sóknar sem önnur lið munu óttast. Síðan erum við með leynivopn á bekknum sem komið geta á óvart. ´83 árgangurinn er með stórt skotmark á breiðum bökum, en við óttumst ekki áskorunina. Látum leikana hefjast,“ sagði Sigurður í samtali við Skagafréttir.
Um kvöldið verður mikil hátíð í íþróttahúsinu við Jaðarsbakka,
matur, skemmtun og stórdansleikur með Stuðlasveitinn & Stebba Hilmars.
Það verður mikil knattspyrnuhátíð í fótboltabænum á laugardaginn því um kvöldið verður mikil hátíð í íþróttahúsinu við Jaðarsbakka. Þar munu keppendur og aðrir gestir hittast í glæsilegum kvöldverði og að því loknu verður stórdansleikur með Stuðlasveitinn & Stebba Hilmars.
Riðlarnir eru þannig skipaðir:
A: 1986, 1975, 1980, 1982, 1984
B: 1977, 1978, 1985, 1974, 1981
C: 1983, 1973, 1976, 1972, 1979
D: Lávarðadeildin: 1968, 1969, 1971, 1970
Kvennariðlar:
A: 1975+, 1984-87, 1989-91
B: 1976-77, 1981, 1978-80