Club 71 kaupir 700 stóla og borð fyrir Þorrablótið

Þorrablót Skagamanna verður enn glæsilegra árið 2017

Club 71, félagsskapur Skagamanna sem fæddir eru árið 1971 fékk á dögunum Menningarverðlaun Akraness. Greint er frá því hér á skagafrettir.is

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365 miðla, er einn af þeim sem staðið hafa fremst í Club 71 stúkunni ásamt fleirum og hann „plataði“ félagsmenn Club 71 á „Þorrablótsfund“ þegar menningarverðlaunin voru afhent. Þar tókst að koma Club 71 verulega á óvart.

Sævar Freyr Þráinsson.
Sævar Freyr Þráinsson.

„Þetta er mikill heiður og erum öll virkilega stolt af því að fá þessa viðurkenningu. Það var einstaklega gaman að taka á móti verðlaununum.

Mér tókst að boða flesta Club71 meðlimi á fund í Garðakaffi til að undirbúa næsta þorrablót. Svo var þeim öllum komið skemmtilega á óvart þegar handhafi menningarverðlaunanna í ár var kynntur.

Var þetta einstök gleðistund sem bætist við margar gleðistundirnar sem við höfum átt vinirnir og vinkonurnar í Club71 síðustu árin,“ sagði Sævar Freyr í samtali við skagafrettir.is

Hannes Viktor Birgisson, stórmálari er einnig í þessum skemmtilega árgangi og hann segir að brekkusöngsævintýrið á Írskum dögum sé upphafið á verkefnunum sem Club 71 hefur staðið fyrir á Akranesi. „Það kemur enginn á brekkusöng á þessum tíma – sögðu margir við mig og aðra sem höfðum áhuga á að gera þetta árið 2008 eða 2009. Ég man það eiginlega ekki. Það sem gerðist var magnað, það komu um 1000 manns og þessi hátíð hefur stækkað og stækkað og er ómissandi þáttur á Írskum dögum,“ sagði Hannes Viktor.

Hannes Viktor Birgisson.

Það voru nú ekki margir sem höfðu trú á því verkefni í upphafi

Það stendur mikið til varðandi Þorrablót Skagamanna sem hefur heldur betur slegið í gegn en Club 71 hefur staðið að því verkefni frá upphafi.

„Það voru nú ekki margir sem höfðu trú á því verkefni í upphafi og það voru að ég held rúmlega 200 manns sem mættu á fyrsta blótið sem fór fram á Jaðarsbökkum.

Við héldum bara áfram og gerðum betur næst og þetta er orðið fastur liður í menningarlífi Skagamanna í dag,“ segir Hannes en Club 71 hefur lagt til um 3 milljónir kr. árlega í íþrótta – og tómstundastarf á Akranesi með því að deila út hagnaði Þorrablótsins til margra félaga.

Það stendur mikið til fyrir Þorrablótið 2017 og hefur Club 71 fjárfest í stólum og borðum fyrir 700 manns. „Þetta er mikil fjárfesting en við erum sannfærð um þetta er rétt ákvörðun. Það gengur ekki að vera að nota stóla og borð úr öllum skólunum á Akranesi og fleiri stöðum, rosalega tímafrekt verkefni að standa í þessu.

Stólarnir og borðin verða geymd á einum stað og nýtt í þetta verkefni. Þau eru keypt í gegnum fyrirtækið GS Import á Akranesi og það ríkir tilhlökkun hjá okkur að fara í þetta dæmi,“ sagði Hannes Viktor.

Frá Þorrablóti Skagamanna 2016, þar sem fólk kann að skemmta sér.
Frá Þorrablóti Skagamanna 2016, þar sem fólk kann að skemmta sér.
13494904_528336650701705_2222892962424679334_n
Frá Þorrablóti Skagamanna 2016.