Vel heppnaðir Vökudagar

Ella María Gunnarsdótir
„Margir í bænum að vinna að skapandi verkefnum“

„Það sem kom einna mest á óvart er að upplifa hversu margir í bænum eru að vinna að skapandi verkum og eru tilbúnir til að bjóða okkur hinum að njóta með sér. Það er svo smitandi að fylgjast með svona drífandi fólki og ekki annað hægt en að hrífast með. Ég sótti fleiri viðburði nú en ég hef gert áður en því miður komst ég ekki á alveg alla,“ segir Ella María Gunnarsdóttir forstöðumaður menningar – og safnamála á Akranesi þegar hún var innt eftir því hvað hefði komið henni mest á óvart á nýafstöðnum Vökudögum á Akranesi.

Ella María er að koma að þessu verkefni í fyrsta sinn sem forstöðumaður hjá Akraneskaupstað og hún er ekki í vafa um að Vökudagar hafi mikla þýðingu fyrir samfélagið.

„Ég held að hátíðin hafi tvímælalaust jákvæð áhrif á okkur. Annars vegar er þetta góður vettvangur fyrir skapandi íbúa að koma list sinni eða hæfileikum á framfæri og svo hins vegar fyrir íbúa að geta notið ótrúlega fjölbreyttra viðburða og nært sálartetrið.“

Ella María Gunnarsdóttir. Mynd/akranes.is
Ella María Gunnarsdóttir. Mynd/akranes.is

Góð aðsókn var á viðburðina sem voru í boði og áhuginn er mikill að sögn Ellu Maríu.

„Mín upplifun er sú að áhugi Skagamanna sé talsverður og á það við bæði hjá þeim sem eru að halda viðburði og þá sem sækja þá. Sumir er það duglegir að þeir ná næstum því að njóta allra viðburða en ég veit líka til þess að aðrir eru ekkert að stressa sig á að mæta.

Það var eitt og annað sem var nýtt og vakti athygli. Má þar nefna að mæðginin Emilía Íris og Garðar Snær buðu heim til sín á sameiginlega listsýningu sem mæltist mjög vel fyrir. Þá var útlagastjórn Bíldalíu stofnuð og í Bjarnalaug voru haldnir tónleikar um leið og gestir gátu notið samflots svo eitthvað sé nefnt.“

Framtíð Vökudaga er í höndum íbúa Akraness segir Ella María og markmiðið er ekki endilega að stækka hátíðina.

„Markmiðið er fyrst og fremst að efla menningarlífið í bænum og bjóða uppá áhugaverða viðburði fyrir bæjarbúa og aðra gesti. Ég myndi því segja að það væri svolítið í höndum okkar íbúa að hafa áhrif á hvernig þessi hátíð mun þróast.“

Markmiðið er að fyrst og fremst að efla menningarlífið í bænum

og bjóða uppá áhugaverða viðburði fyrir bæjarbúa og aðra gesti

Ella María er ánægð í nýja starfinu og það er nóg framundan.

„Það er ekki annað hægt en að vera ánægður í þessu starfi. Ég er að kynnast svo mörgu góðu fólki og læra margt nýtt. Nú erum við í vinnu við fjárhagsáætlanir og skipulag fyrir næstu ár en svo eru jólin og áramótin framundan með sínum viðburðum. Á Byggðasafninu eru nokkur stór verkefni framundan sem þarf að undirbúa vel og svo er alltaf eitthvað spennandi að gerast í Bókasafninu,“ sagði Ella María Gunnarsdóttir.

Frá tónleikum í Tónlistarskóla Akraness. Mynd/akranes.is
Frá tónleikum í Tónlistarskóla Akraness. Mynd/akranes.is
Frá fyrirlestri í Stúkuhúsinu hjá Stefáni Pálssyni um sögu áfengis á Íslandi. Mynd/akranes.is
Frá fyrirlestri í Stúkuhúsinu hjá Stefáni Pálssyni um sögu áfengis á Íslandi. Mynd/akranes.is
Bjarni Þór Bjarnason og Harpa Hreinsdóttir voru með sýningu á Vökudögum. Mynd/akranes.is
Bjarni Þór Bjarnason og Harpa Hreinsdóttir voru með sýningu á Vökudögum. Mynd/akranes.is