Skallabann í Bandaríkjunum – hjá börnum yngri en 10 ára

Bandaríska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að gera breytingar á knattspyrnureglunum fyrir leikmenn sem eru 10 ára og yngri. Reglubreytingin hefur vakið athygli á heimsvísu en bannað verður að skalla boltann í þessum aldursflokki.

Árið 2014 tók hópur foreldra sig saman og fór í mál gegn Alþjóða knattspyrnusambandinu, FIFA, og bandaríska knattspyrnusambandinu. Í málflutningi þeirra var m.a. bent á að 50.000 skráð atvik voru um heilahristing hjá iðkendum í knattspyrnu á unglingastigi. Sem er meira en samanlagður fjöldi slíkra tilvika hjá iðkendum í hafnarbolta, körfubolta, mjúkbolta og grís-rómverskri glímu hjá sama aldursflokki.

Árið 2014 tók hópur foreldra sig saman og fór í mál gegn Alþjóða knattspyrnusambandinu, FIFA, og bandaríska knattspyrnusambandinu.

Markmiðið með málsókninni var að fá fram breytingar á knattspyrnureglunum en var ekki hugsað sem skaðabótamál. Málinu gegn FIFA var vísað frá en bandaríska knattspyrnusambandið tók ákvörðun um að breyta reglunum í Bandaríkjunum. Bannað verður að skalla boltann í leikjum hjá keppendum 10 ára og yngri, en slíkt verður leyft í aldursflokknum 11-13 ára.

George Chiampas, hjá bandaríska knattspyrnusambandinu, segir að markmiðið með breytingunni sé að minnka líkurnar á því að höfuðmeiðsli eigi sér stað í knattspyrnu hjá þessum aldursflokki.

Að auki verður sett inn ný regla í Bandaríkjunum sem snýr að fjölda skiptinga á öllum stigum knattspyrnunnar. Í dag eru leyfðar þrjár skiptingar hjá fullorðnum. Ný regla mun hinsvegar leyfa liðum að skipta inn leikmanni þrátt fyrir að liðin hafi notað allar þrjár skiptingar. Þar er um að ræða tilvik þar sem höfuðhögg eiga sér stað – og getur leikmaður komið inn á meðan læknateymi greina ástand þess sem fékk höfuðhöggið. Þetta er gert til þess að leikmenn haldi ekki áfram að spila þrátt fyrir að hafa fengið höfuðhögg af ótta við að skilja liðsfélaga sína eftir í „verri málum“ á meðan þeir fara útaf.

Úr leik 4. fl. ÍA. Mynd/skagafrettir.is
Úr leik 4. fl. ÍA. Mynd/skagafrettir.is